Læknablaðið - 15.04.2005, Blaðsíða 9
RITSTJÓRNARGREINAR
Læknar og nýr spítali
Hlutirnir gerast hratt þessar vikurnar. Ákvörðun
ríkisstjórnarinnar frá 18. janúar síðastliðnum setti
allt af stað. Forvali hönnuða sem bjóða í skipu-
lagningu spítalasvæðisins lýkur í apríl og tillögur
þeirra sem til greina koma eiga að liggja fyrir í
haust. Á heimasíðu Landspítala má líta margvísleg
gögn sem skýra framvinduna, meðal annars fyrri
ákvarðanir framtíðarnefndar og forsendur fyrir
staðarvali. Þó hratt gangi þessa stundina er ráð-
gert að undirbúningur byggingar nýs spítala taki
nokkur ár.
Læknum ber að taka virkan þátt í hönnun nýs
spítala. Deila má um staðarval en þeir sem eru
ósáttir við fyrirliggjandi ákvörðun Landspítala
ættu að safna liði sem fyrst því stóru skipi verður
ekki snúið á punktinum. Þó sátt verði um reitinn
milli gömlu og nýju Hringbrautarinnar vakna samt
sem áður margar áleitnar spurningar sem læknar
verða að taka afstöðu til og svara, til dæmis hvaða
byggingum skuli fórnað og hverjar standa áfram og
þá hvaða hlutverki þær gegni. Má rífa geðdeildina
eða nýja barnaspítalann? Hvað á að gera við gamla
Borgarspítalann? Nær maður vinstri beygju inn á
spítalann á morgnana? Verða einhver bflastæði við
nýja spítalann? Hvert fer allt frárennslið?
Hönnun sjúkrahúsa er svo sem ekkert nýtt fyr-
irbæri en í þessu tilfelli fáum við bara eitt tækifæri
og við gerum þá kröfu að niðurstaðan verði vel
heppnuð. Þungamiðja hönnunarvinnu sem snýr
að læknum varðar skipulag einstakra deilda. Hér
reynir á yfirlækna þessara deilda og þeir verða að
mæta vel undirbúnir til þess verks. Gamall refur
missti það nýlega út úr sér að í svona verkefni ætti
yfirstjórnin að leggja línurnar, verkstjórarnir kafa
djúpt í hönnunina en millistjórnendurnir koma
hvergi nálægt. Þetta leiðir hugann að ábyrgð og
valdi yfirlækna einstakra deilda, og fyrst verið er
að nefna það þá má segja það sama um hjúkrun-
arþáttinn. Lögin skilja að ábyrgð þessara tveggja
stétta og eiginlega er eini yfirmaður beggja sjálfur
forstjórinn. Verkstjórar hjúkrunar og lækninga
á hverri deild verða að vera samstíga ella flyst
ákvörðunartakan upp eftir þrepum stjórnkerf-
isins.
Læknar geta ekki vikið sér undan ábyrgð á
hönnun sinna deilda. Þeir verða sjálfir að afla sér
þekkingar, leita ráða og spyrjast fyrir. Næstu miss-
eri verða afgerandi fyrir framtíð einstakra deilda
og sérgreina. Það á svo eftir að koma í ljós hvort
yfirstjórn spítalans ætlist til einhvers framlags af
hálfu lækna einstakra deilda við hönnun spítalans.
Það er svo sérstakt íhugunarefni hvað hægt er
að skrifa langt mál um nýja spítalann án þess að
víkja einu orði að sjúklingunum. Kröfur starfs-
manna um aðbúnað verða sjálfsagt áberandi en
gleymum ekki hverjum á að þjóna.
Kristján
Guðmundsson
Höfundur er háls-,
nef- og eyrnalæknir.
Læknablaðið 2005/91 325