Frjáls verslun


Frjáls verslun - 01.09.2005, Page 80

Frjáls verslun - 01.09.2005, Page 80
80 F R J Á L S V E R S L U N • 9 . T B L . 2 0 0 5 Verslunin Drangey á sér rúmlega sjötíu ára sögu. Og svo skemmtilega vill til að þrír af fjórum eigendum hafa verið konur sem allar heita María. Drangey byrj- aði sem matvöruverslun á Grettisgötu árið 1934. Tveimur árum síðar keypti María Sam- úelsdóttir Ammendrup verslunina sem flutti á Laugaveginn árið 1941og var þá aðallega verslað með vefnaðarvörur. Tengdadóttir Maríu, María Magnúsdóttir Ammendrup, tók við rekstrinum 1975 og voru þá leður- vörur í öndvegi. Árið 1995 keypti María Maríusdóttir verslunina og var vöruúrvalið áfram töskur, hanskar, seðlaveski og fleira. Drangey opnaði aðra verslun í Smáralind 2002 og voru þá teknar inn heimilis- og gjafavörur meðfram leðurvörunum og þá sér- staklega töskum sem löngu var orðið sérein- kenni verslunarinnar. Árið 2004 hætti síðan Drangey við Laugaveginn og starfsemin var efld í Smáralind. „Ég ætlaði alltaf að vera með tvær versl- anir, en það gekk því miður ekki upp. Það dró úr sölunni á Laugaveginum og svo varð ég þess vör að viðskiptavinir mínir kusu frekar að koma í Smáralindina. Annað sem ég tók eftir var að í Smáralindinni gilda aðrir viðskiptahættir en á Laugaveginum. Í Smáralind má reikna með því að fólkið komi þangað vikulega og geri sín viðskipti þar, en á Laugaveginum er meirihlutinn gangandi vegfarendur sem fara Laugaveginn á tveggja til þriggja mánaða fresti og þá ekki fyrst og fremst í verslunarerindum. Ég byrjaði minn starfsferil á skrifstofu. Þaðan lá leiðin í fjölmiðla, var einn vetur með morgunþátt í Ríkisútvarpinu ásamt Stefáni Jökulssyni og fór síðan í sjónvarpið þar sem ég starfaði sem skrifta og síðar pródúsent á Stöð 2 í 10 ár. Ég hafði alltaf haft löngun til að fara út í eigin atvinnurekstur og dag einn var ég á gangi niður Laugaveginn og staðnæmdist við Drangey, verslun sem mér leist vel á. Ég hringdi í Maríu og spurði hvort hún væri nokkuð að selja og það fór nú svo að fimm dögum síðar átti ég verslunina. Ég held að nafn mitt hafi haft nokkuð að segja hversu vel tókst með kaupin.“ María er allt í öllu í verslun sinni: „Ég vil hafa Drangey persónulega og hef smám saman verið að breyta henni í þá áttina án þess að víkja frá töskunum. Ég sæki sýn- ingar erlendis og flyt allar mínar vörur sjálf inn. Ég hef alltaf reynt að hafa í kringum mig fallegar vörur frá góðum framleiðendum. Á því lifir Drangey svo segja má að búðin sé samsett af mér.“ Fjölskylda Maríu er stór. „Ég á þrjú upp- komin börn og barnabörnin eru orðin sjö og eru þau gullmolarnir í lífi mínu. Ég reyni að vera með þeim mestan þann tíma sem ég á afgangs. Og að vera með þeim er mér mikil lífsfylling. Önnur áhugamál á ég ekki svo mörg. Fólk er alltaf að tala um að fara í ræktina. Ég læt mér nægja að fara í göngutúra og fer stundum í sund. Það er ótrúleg vinna að reka verslun og það gerir enginn til lengdar nema hafa mikinn áhuga og hann hef ég svo sannarlega. Svo segja má að fyrir utan fjöl- skylduna sé Drangey mitt áhugamál. Eitt er ónefnt, en það er Félag kvenna í atvinnurekstri, þar sem ég er í stjórn. Ég hef mikla ánægju af að taka þátt í starfi félagsins með konum sem eru hver annarri skemmti- legri. Þess má einnig geta að ég bjó í 19 ár á Ísafirði og var einn af stofnendum Litla leikklúbbsins, sem fagnaði 40 ára afmæli sínu fyrr á árinu.“ María gerir lítið af því að taka sér sumar- frí: „Ég vil helst vera heima hjá mér á sumrin og lifa í þeirri von að veðrið verði gott. Ég fór um páskana í fyrsta sinn til Kanaríeyja og var mjög hrifin og skil nú hvað fólk er að sækja þangað.“ FÓLK verslunareigandi í Drangey María Maríusdóttir María Maríusdóttir. „Ég hef alltaf reynt að hafa í kringum mig fallegar vörur frá góðum framleiðendum og á því lifir Drangey, svo segja má að búðin sé samsett af mér.“ Nafn: María Maríusdóttir. Fæðingarstaður: Reykjavík, 7. 4. 1948. Foreldrar: Maríus Jónsson og María Pálsdóttir. Sambýlismaður: Guðbrandur Jónsson. Börn: Kristján, Eggert og Sigþór Samúelssynir.

x

Frjáls verslun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Frjáls verslun
https://timarit.is/publication/282

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.