Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Síða 19
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
193
heitir Sandgígur, tekur hann að svipast um eftir samferðamönnum
sínum, en þeir sjást hvergi. Hann leitar þeirra um hraunið í nærri
því tvær stundir, ríður upp á hóla, hóar, horfir og kallar, en allt er
það árangurslaust. Hvergi sér urmul eftir af lestinni. Hún er týnd,
og fylgdarmennirnir hljóta að hafa villzt. Nú er Jónas Hallgrímsson
í vanda staddur. Hann hefur þreytt sig og hestinn í leitinni og stend-
ur nú eftir einn og allslaus langt uppi á heiðum. Hann hefur hvorki
nesli né yfirhöfn. Hvað á hann nú til bragðs að taka? Halda til
byggða? Nei, hann ætlaði sér að fara kringum Skjaldbreið, og það
skyldi ekki bregðast. „Eg afréð því,“ segir hann í dagbók sinni,
„að treysta á hestinn minn góða, halda áfram jarðfræðirannsókn-
um mínum á fjallinu, fara í kringum það og látast hafa lestina með
mér. Ef ég fyndi hana um kvöldið í áfangastað, þá fór allt vel, en
annars átti ég að geta náð til mannabyggða að kvöldi næsta dags,
svo framarlega sem engin óhöpp bæri að höndum. Ég hélt því áfram
aleinn.“
Og sólin skein í heiði, en Skjaldbreiður faldaði hvítu fyrir þess-
um einhuga og æðrulausa náttúruskoðara, sem hélt leiðar sinnar al-
einn um hraun og heiðamóa. Hann og hesturinn eru eitt: lítill, hvít-
ur depill á bláu hafi bergsins.
Þegar Jónas kemur austur um Skjaldbreið, hverfur honum sýn
til suðurs, en önnur ný opnast inn um hinn víða fjallageim, þar
sem Hlöðufell drottnar, en Lambahlíðar hjúfra sig upp að hvítu
brjósti Langjökuls. Þannig heldur hann áfram og sækist fremur
seint, því að margt ber fyrir augu, að mörgu þarf að hyggja. —
Norðan við Breiðinn sveigir hann svo til vesturs fram með fjalls-
rótunum. Og seint um kvöldið, þegar sólin rennur við Ok, hverfur
hann vestur frá fjallinu. Dagsverkið er á enda.
Hesturinn er nú tekinn að lýjast, en sjálfur er hann óþreyttur.
Hann er glaður yfir góðum degi, þakklátur við fjöllin og sólskinið.
Jónasi Hallgrímssyni líður vel og kvíðir engu, þó að lestin sé týnd
og tröllum gefin. Hann lætur klárinn sinn lötra í kvöldkyrrðinni
með slaka tauma og rekur fyrir sér atburði dagsins, rannsóknirnar
og ferðalagið frá Þingvöllum. Hann þykist skilja til fulls þau rök,
sem ráðið hafi um sköpun Skjaldbreiðs og vallarins við hina bláu
skóga, þingstaðarins, þar sem ekki átti framar að halda þing. —
13