Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Blaðsíða 104
278
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
gufar vatnið, er sólin skín á landið, og safnast í skýjabólstra hátt í
lofti. Vindarnir, sem eiga sjálfir ætt sína að rekja til sólarorkunnar,
bera skýin norður á bóginn, nokkur hluti þeirra lendir á Fedsjer.ko-
skriðjöklinum og kólnar, og vatnið steypist yfir jökulskallann í
mynd regns eða snævar, frýs og bætir þannig æ nýjum ísalögum
ofan á þau, sem fyrir voru. Sólarorkan dælir þannig miljónum og
aftur miljónum smálesta vatns upp á jökultindana í mörg þúsund
metra hæð. En ekki er öllu þar með lokið. Staðorka hins frosna
vatnsmagns breytist aftur í flugorku rennandi vatns, er sólin bræðir
neðan úr jöðrum skriðjökulsins og vatnsflaumurinn steypist niður
hlíðarnar eftir giljum og gljúfrum, er sameinast í enn stærri far-
vegum, þar til allt kemur saman í stórfljótinu Amu-darja, sem renn-
ur norðvestur í Aralvatn yfir lendur ráðstjórnarlýðveldanna Tad-
sjikistans og-Túrkmenistans. Þar er vatnið látið vökva víðlendar
baðmullarekrur og reka tröllauknar vatnsaflstöðvar. Sólarorkan er
þannig orðin að vélaorku.
Það er nú raunar engin ný uppgötvun, að starfsorka fljóta og
fossa sé upphaflega frá sólinni komin. En hinir rússnesku vísinda-
menn, sem fyrr eru nefndir, halda því fram, að bezta og einfaldasta
aðferðin til að hagnýta sólarorkuna sé sú að beizla fallvötnin. Og
þeir segja, að mennirnir eigi ekki að láta sér nægja að taka vatns-
orkuna hvert sinn, þar sem hún kann að fyrirfinnast, heldur eigi
þeir að hagræða rennsli fljótanna eftir því, sem hagkvæmast sé,
með því að grafa nýja farvegi og gera fyrirhleðslur, þar sem þurfa
þyki. í sambandi við slík mannvirki megi gróðursetja nýja skóga
á hentugum svæðum o. s. frv. Vísindamenn þessir benda á það, að
með því að gera nýja árfarvegi og skapa ný vatnaskil megi græða
upp geysivíðlend eyðiflæmi og gera jörðinni tækt að halda í og
hagnýta sér mjög mikið af sólarorku, sem nú geislar aftur út í
kaldan geiminn engum til gagns frá sandauðnum og gróðurlausum
öræfum. Hinir rússnesku vísindamenn benda einnig á það, að með
slíkum ráðstöfunum gætu menn ráðið að nokkru yfir veðurfarinu,
því að loftslag muni tvímælalaust breytast til muna, ef takast mætti
að græða eyðimerkur jarðarinnar. Loftslag jarðarinnar mundi
temprast, í hitabeltislöndunum yrði ekki eins ofsaheitt og nú er, og
heimskautalöndin yrðu hlýrri. Það er vissulega heillandi útsýn, sem