Tímarit Máls og menningar - 01.12.1944, Page 98
272
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
á að vera alvarlegt eins og líkræða, eða konungleg tilskipun frá
17. öld. Mun hér nokkru um valda, hve kanselístíllinn hefur haft
djúptæk og ill áhrif á allt ritmál síðari tíma.
Mér er enn í fersku minni, þegar ég fyrst heyrði talað um Bréf
til Láru. Fólkið var alveg höggdofa og grallaralaust. Ollum kom
þó saman um, að höfundurinn hlyti að vera vitlaus — hefði líklega
sloppið út af Kleppi. Hitt var mönnum ráðgáta, hvernig nokkrum
mönnum með fullu viti gat dottið í hug að prenta bók eftir vit-
lausan mann.
Að vísu hefur fólk vitkazt mikið, síðan Bréf til Láru kom út. Þó
skortir mikið á, að gildi kýmninnar í rituðu máli sé almennt viður-
kennt. Flestir vaða í þeirri furðulegu villu, að ekkert mark sé tak-
andi á ritsmíð, ef einhvers staðar örlar á fyndni eða græskulausu
gamni. Ritað mál á að vera alvarl'egt, eins og það feli í sér sinn
eigin dauðadóm.
En þetta er mikill misskilningur. Oft er hægt með einni hnvttinni
setningu að komast nær kjarna máls en með tíu langvellulegum
leiðarasetningum.
Sérstök ástæða væri fyrir blaðamenn að athuga þetta. Oft skrifa
þeir eins og þeir stæðu yfir andstæðingi sínum með reidda reglu-
stiku. Það út af fyrir sig er vel fyrirgefanlegt. Hitt er öllu hvim-
leiðara, þegar þeir eru með ólund og beiskju, líkt og þeir þjáist af
langvarandi meltingartruflunum eða óþolandi tannpínu. Fráleitt
stafar þetta af því, að blaðamenn séu skapverri en aðrir menn, eða
snauðari af fyndni en fólk er flest. Hér mun það mestu um ráða,
að þeir ganga með þá grillu í höfðinu, að þeim verði betur ágengt
í starfi sínu, ef þeir segja það, sem þeim liggur á hjarta, með svip-
uðu orðalagi og þeir væru að semja sína eigin líkræðu.
Ekkert þori ég um það að segja, hvort spekingar og fræði-
menn myndu bíða tjón á sálu sinni, ef þeir tækju fyndnina, sem
lifir á vörum alþýðunnar, í þjónustu vísindanna. En ef það reyndist
framkvæmanlegt, myndu færri fræðibækur liggja ólesnar í bóka-
hillum.
Rithöfundar standa allra manna bezt að vígi með að taka sinna-
skiptum gagnvart fyndninni. Undantekningalítið hafa þeir reynzt
undarlega ófundvísir á þennan eiginleika í fari fólksins, enda þótt