Tímarit Máls og menningar - 01.03.1956, Blaðsíða 30
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
lánveitíngar sé spekulasjónir yíirleitt. Og það er ekki hægt að halda dyrunum
á hálfa gátt endalaust í þessu veðri.
Jæa við sleppum frakkanum góði, sagði maðurinn og brosti; hann lét annan
fótinn svo lítið bar á uppá þröskuldinn milli stafs og hurðar. En brennivín
verður að vera, bætti hann við.
Brennivín fáið þér ekki af mér. Ég drekk ekki, sagði rithöfundurinn.
Ættum við þá ekki að segja sosum fimtíu krónur fyrir æviferilinn einsog
hann leggur sig frá því ég var getinn í móðurkvið: það jafngildir hálfflösku.
Ég get kanski fundið einhvern sem vill leggja í hálfflösku á móti.
Rithöfundurinn sagði: Þó ég ætti miljón þá held ég æviferill yðar væri það
síðasta sem ég mundi kaupa. Þér eruð aldeilis gersamlega á villigötum maður
minn.
Jæa svona er það, sagði maðurinn. En mér duttuð þér í hug af því þér eruð
frægt veruleikaskáld í tukthúsinu; og af því kötturinn minn drapst í nótt; og
af því ég seldi háskólanum úr mér beinin fyrir rúmum tíu árum, svo þeir eiga
úr mér beinin í háskólanum.
Sjáið þér ekki að það snjóar inn maður, sagði rithöfundurinn.
Fyrirgefið þér, en ég veit hvað þér eruð mikið skáld og mér þykir leiðinlegt
að ég hef aldrei getað óskað yður nægilega til hamíngju: hvað munduð þér
segja ef ég slæi nú aftur af þessari upphæð sem ég nefndi áðan og við segðum
bara einsog eitthvert smáræði fyrir neftóbaki ?
Hm.
Og þá kanski segði ég yður bara part; þá segði ég yður kanski bara af því
hvað ég hef átt í miklu stríði með þennan bölvaðan kött; hana Rósettu. Já hún
hét Rósetta. Það er útlent orð og þýðir slaufa. Ég skírði hana Rósettu af því ég
hafði ekki tök á að binda á hana slaufu.
Þér ætlið þó ekki að frysta mig í hel hérna í dyrunum líka, sagði rithöfund-
urinn.
Ég hef aldrei vitað kött sem verðskuldaði slaufu ef ekki sá köttur. Hún verð-
skuldaði ekta silkislaufu og meira segja tvöfalda slaufu og jafnvel þrefalda
slaufu ef þvílíkar slaufur væru til. Það hefur aldrei sést köttur með eins fallegt
stýri hér á götunni. Þegar ég var búinn að leita að henni hálfar og heilar næt-
urnar, og ég var kanski svolítið undir áhrifum, og þaráofan með heimsfrægan
sjúkdóm í beinunum, og ég var kanski búinn að detta oní alla polla á götunni,
og tvisvar í suma, og seinast skreið ég kanski inní kjallarann til mín án þess að
hafa fundið helvítis köttinn; og nú legst ég kanski fyrir að sofa á gólfinu Iijá
mér, og það er farið að grána á glugga, og veit ég ekki fyren einhver stiklar
20