Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Page 15
Halldór Stefánsson
dórs eru framlag til sömu baráttu, um leið og þær bestu þeirra munu
lengi taldar til fremstu afreka í íslenskri smásagnagerð.
Við sem þekktum Halldór Stefánsson vitum að á bak við hlédrægni
hans og látlaust fas bjuggu sterkar tilfinningar sem hann flíkaði sjaldan
og ekki við hvern sem var. Það sama gildir um sögur hans á ytra borði, en
annað sést ef betur er lesið. Um hann er því réttmæli það sem stendur í
einni sögu hans: „Það eru aðeins verkin sem gefa mönnum hugmynd um
listamanninn." Sú hugmynd sem lesendur fá um listamanninn með því að
lesa sögur Halldórs er sönn, vegna þess að í list sinni var hann heill og
falslaus, og ákveðnar skoðanir hans og sterkar tilfinningar koma þar fram
þegar lesið er með skilningi.
En fjölskylda hans og við sem áttum því láni að fagna að kynnast
honum minnumst hans ekki aðeins sem listamanns, heldur hugsum við
engu síður til mannsins, sem sakir persónuleika síns og manngildis
varð því stærri sem kynnin urðu meiri. Við hjónin vorum svo lánsöm
að verða snemma nákunnug þeim Halldóri og Gunnþórunni og tíðir
gestir á heimili þeirra; þar kynntumst við þeim mannkostum og þeirri
mildi sem mótaði húsráðendur. Vináttu þeirra höfum við aldrei getað
fullþakkað, en hún mun okkur ekki úr minni líða.
Við kveðjum hér vin okkar Halldór Stefánsson, sem genginn er úr
þvísa Ijósi, en skilur eftir þann minnisvarða sem hann hefur reist sér
með list sinni, og lætur eftir hjá fjölskyldu sinni og vinum minninguna um
heilsteyptan mann og góðan dreng, sem hvergi mátti vamm sitt vita.
Hvíli hann í friði.
5