Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Page 108
Tímarit Máls og menningar
lögum að vera utan við sig? Hvaða uppistand er þetta eiginlega. Helduru
að ég steli úr búðum viljandi?
— Uppistand? sagði Magnús Snæfells. Og þú leyfir þér að tala um
uppistand! A hverjum heldur þú eiginlega að þetta bitni?
— Það bitnar ekki á neinum nema mér, sagði sú ákærða. Ekki var
farið með þig inn á skrifstofuna og leitað á þér fyrir engar sakir.
— Skiluru ekki hvað þetta þýðir, manneskja, hvaða afleiðingar það
getur haft, ef þetta spyrst út? Ef þetta fréttist þá ég ég búinn að vera. Ef
ég býð mig fram til einhvers embætds þá spyr fólk: Hvernig er það, var
það ekki konan hans Magnúsar Snæfells sem var tekin fyrir að stela úr
búðum?
Sigríður horfði á hann með undrunarsvip:
— Hvað gengur eiginlega á, Magnús? Er ég ekki búin að segja þér, að
þetta er tómur misskilningur frá upphafi til enda?
— Misskilningur? Ha? Er það kannski misskilningur að þú hafir í votta
viðurvist skrifað undir viðurkenningu á því að þú hafir stolið vörum fyrir
tugi þúsunda í Hagveri? Er það kannski misskilningur, að Marinó Bjarna-
son verslunarstjóri hafi skjalfesta viðurkenningu á því að þú sért tauga-
sjúklingur, sem er kannski ennþá verra?
— Hefur hann vottorð um að ég sé taugasjúklingur? Hvar hefur hann
fengið það vottorð?
— Fengið það vottorð? Ja, einhvern veginn varð maður að reyna að
klóra yfir þetta; eitthvað varð ég að gera til að reyna að koma í veg fyrir
að hann hlypi með málið til lögreglunnar.
— Og þú lést hann hafa vottorð um að ég væri geðbiluð. Það dugði
ekki minna. Hvar fékkstu þetta vottorð?
— Ekki geðbiluð. Heldur taugasjúklingur. En það kemur kannski út á
eitt. Mörður skrifaði vottorðið fyrir mig. Mér datt aldrei í hug, að ég mundi
neyðast til að skilja það eftir.
— Jasja, svo þú ert farinn að dreifa um bæinn vottorðum um að ég sé
geðbiluð. Á ég þá ekki að fara að taka saman dótið mitt? Ætlarðu ekki að
láta setja mig á Klepp?
— Nei, auðvitað ekki. Það væri síst betra að það spyrðist út, að konan
manns væri á Kleppi.
— Þú ert ekki að hugsa um mig. Hvernig helduru að það sé að láta
ákæra sig fyrir að vera þjófótt og svo geðbiluð í ofanálag? Þér dettur ekki
einu sinni í hug að ég sé saklaus af þessu.
98