Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Side 130
Tímarit Máls og menningar
skáldskapar“. Hún er samin í formi skáldsögu en byggð í öllum smáatriðum
á raunverulegu morðmáli sem vakti mikla athygli og skelfingu á sínum
tíma. Höfundur gefur í skyn að skáldskapur og sögulegar staðreyndir úr
samtíð eða fortíð eigi fulla samleið á tímum þegar daglegt líf er tekið að
gerast ótrúlegra en nokkur lygisaga. Arum saman vann Capote að þessari
bók, átti endalausar samræður við hina tvo dauðadæmdu morðingja áður
en þeir voru teknir af lífi. Þessi samtöl á ótal segulböndum ásamt alls kyns
upplýsingum úr öllum áttum notar Capote að uppistöðu í verk sem er
samið eins og æsileg skáldsaga. Hann kannar bakgrunn og æviskeið morð-
ingjanna og varpar Ijósi á ýmsar aðstæður sem kynnu að gefa vísbendingu
um orsakir þess að þeir myrm heila fjölskyldu að tilefnislausu.
Bókin vakti magnaðar deilur þegar hún kom út, en um það er ekki að
villast að hún er eina verk þessa snjalla og fjölhæfa höfundar sem speglar
mótsagnir og margbreytileik samtímans undanbragðalaust. Bókin hefur
komið út á íslensku undir heitinu „Með köldu blóði“.
Annar höfundur, E. L. Doctoroiv (f. 1931), hefur farið inn á svipaða
braut og Capote í tveimur síðusm skáldsögum sínum, „The Book of
Daniel“ (1971) og „Ragtime" (1974). Fyrri bókin er byggð á æviferli
hinna ógæfusömu sona Rosenberg-hjónanna sem vora líflátin fyrir njósnir,
að líkindum alsaklaus, í vitfirringu kalda stríðsins og McCarthy-skeiðsins.
Hún lýsir lífi og kjörum þessara barna á þann hátt að manni rennur kalt
vatn milli skinns og hörands. „Ragtime", sem kom út á ísl. fyrir skömmu
undir sínu enska heiti, er sambland af sögulegum staðreyndum og skáld-
skap sem eru þannig saman ofin að lesandinn veit aldrei með vissu hve-
nær hann er að lesa um raunveralega sögulega viðburði og hvenær höfund-
urinn gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn. Árangurinn verður mögnun
eða upphafning þeirrar tilfinningar að mannlífið, með öllum sínum hrika-
legu aðstæðum og sjálfsmótsögnum, sé óþrjótandi uppspretta þeim höf-
undum sem hafa þor og innsæi til að gefa óskapnaðinum form og merk-
ingarbært inntak.
Báðar hafa þessar bækur Doctorows hlotið óskipt lof bókmenntamanna
og átt meiri almannahylli að fagna en títt er um alvarleg bókmenntaverk.
Þær virðast satt að segja vera andsvar við þeim höfundum þagnarinnar sem
standa ráðvana gagnvart vaxandi vitfirringu veraldarinnar þó þeir þekki
alla leyndardóma og blæbrigði mannlegrar tjáningar.
120