Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Side 25
Gomes Ferreira
Svo er mér skylt að lifa fram í rauðan dauðann!
Mundi ekki vera manneskjulegra
að mega deyja dálitla stund,
stöku sinnum
og byrja svo aftur lífið, enn á ný,
og finnast það vera nýtt og svipbreytt?
Æ, bara ég gæti framið sjálfsmorð í sex mánuði,
geispað golunni uppi á dívan
og hvílt höfuðið á svæfli,
handviss og öruggur um að þú vakir,
vina mín úr norðrinu!
Ef einhver kemur og eftir mér er spurt
þá svarar þú með brosi
og blíðu og ljúfu hjarta:
„Hann deyddi sig í dögun
og mér dettur ekki í hug
að endurlífga hann vegna einhvers smáræðis.“
Á eftir kemur þú afar hljóðlát
og vakir yfir mér, vinaleg og gætin,
og tiplar á tánum, svo ekki raskist ró
dauðans sem sefur í örmum mér eins og drengur. . .
MIGUEL TORGA fæddist í héraðinu Tras-os-montes (Handan fjalla) árið 1907, í
þorpinu S. Martinho, sonur bláfátæks bónda en fór ungur til Brasilíu að vinna fyrir
sér og kosta sig til náms. Við heimkomuna lærði hann læknisfræði en hvarf samt
aldrei úr sinni stétt heldur ræktaði með sér hugsunarhátt hennar og auðgaði með
æðri menntun og þeim fróðleik og visku sem hann hefur vinsað úr sögu
mannsandans. Góðu heilli er mannsandinn ekki séreign neinnar stéttar og hann er
óstéttvís í eðli sínu. Stéttir geta hins vegar notfært sér hann.
Auk þess að yrkja ljóð skrifar Torga sögur, leikrit og Dagbækur, en þær eru afar
frumlegt bókmenntaform: það sem skáldlækninum dettur í hug, hvort sem það er í
bundnu eða lausu máli.
495