Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Blaðsíða 114
Bessa Luis
Unnustinn
Hann vissi ekki hvenær þau mundu hittast aftur. í eyrum hans kurraði
enn rödd gædd ágengum krafti og viðkvæmni sem var kannski aðeins
undrun andspænis hinni gjöfulu ást hans. Unnustan var í hvívetna
íhugul og dálítið illgjörn. En hún lét auðsæilega undan, furðu lostin
þegar hún fékk vissu fyrir fátækt hans, en fannst hún rómantísk eftir að
henni þótti hún vera í fyrstu viðbjóðsleg. Ast hennar gat aðeins vaknað
við samúð. Nú voru þau elskendur.
Þau höfðu kvaðst enn einu sinni á skjóttliðnum unaðsdegi ásta, þegar
hjartað virðist teygt milli tveggja andstæðra skauta tímans. „Hárið á þér
er á litinn eins og fallið lauf,“ hafði hann sagt. Yfir höfði þeirra þaut í
lindirunnanum, flækingar geispuðu á trébekkjum og borgin teygðist í
ótal áttir fléttuð í sporvagnanet, strengi, húsgafla og reykháfa. Rykið
þyrlaðist upp um trjátoppana sem felldu laufið, og í gegnum laufhafið
síaðist kyrr rauðleit birta. Þannig leið dagurinn. En það var ekki fyrr en
löngu síðar að hann kvaddi unnustuna, veifaði henni frá bröttu tröppu-
götunni líkt og af skipsfjöl. Hún lét sig falla á marmaratröppurnar og
grét, í tárunum fann hún næstum huggun, næstum ástæðu til þess að hún
væri með sjálfsdekur. Hann brosti biðjandi, þögull og með þjáningu í
andlitsdráttunum. Þetta var dálítið renglulegur piltur, næstum ungling-
ur, stóreygur og hvarmarnir virtust hafa verið dregnir með pensli á sama
hátt og myndir eru á egypskum grafþróm. Hann bjó ekki í borginni, og
ferðir hans kostuðu afneitun á öðrum sviðum, sparsemi, útreikninga og
peningaáhættur sem aðeins hinn snauði þekkir og veit hvað eðli pening-
anna er kynlegt. Sérhver ástarfundur kostaði hann andvökur, djúpa
íhugun sem stefndi að því að hann gæti náð brýnu tali af unnustunni.
Sérhvert ástarandvarp kostaði þreytu, útsjónarsemi og ólýsanlega þrek-
raun. í>að sem öðrum var létt löngun, borgaraleg útrás tilfinninganna,
það að vera samkvæmur eðli sínu, létt gaman, aukaatriði, orðagjálfur,
kveisa og dægrastytting var honum nauðsynleg barátta, knýjandi þörf,
þáttur í sögu mannlegra kennda.
584