Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Blaðsíða 28
Tímarit Máls og menningar
Flónið ég hélt
— ó heimska von —
að kertið bæri
bjartasta loga. Ljós
sem lýsir upp lífið!
Dag nokkurn dó loginn
og ég sá
að skinið frá kertinu hafði
skyggt á sanna ljósið. . .
Um leið uppgötvaði ég lífið.
SOPHIA DE MELLO BREYNER ANDRESEN fæddist í Oporto árið 1919. Hún
hætti námi í klassískum málvísindum og giftist og átti börn, orti, skrifaði fyrir börn,
bjó við hafið, og eftir byltinguna í Portúgal árið 1974 var hún þingmaður fyrir
sósíalista.
Af hinum klassísku málvísindum hefur hún lært af grikkjum að horfa á hlutina og
sjá þá ekki aðeins í sinni áþreifanlegu mynd heldur í bláma skynjunarinnar og innan
heildar endaleysisins. Portúgölsk ljóðlist er nátengd hinum klassíska heimi en líka
heimi siglinga og eilífrar leitar út á hafið eftir hinu ókunna, svo hægt sé að nema þar
land.
Portúgölsk ljóðlist er á margan hátt heimur mennta, og þótt inn í hann berist
hversdagshlutir bregða hefðirnar yfir hann blæ fágunar. I ljóðlistinni hefur efnið lært
að umgangast aðra eiginleika ljóðsins eins og fiskurinn hafið. Hvarvetna tekur
ljóðagerðin sér fiskinn til fyrirmyndar. Slíkt er afar fágætt í ljóðlist nútímans.
Hvarvetna er hinn bjarti ljómi, jafnvel í dauðanum, hryggðinni og þránni sem
síendurtekin og forn birtist í nýjum hugsanabúningi.
Ljóðið streymir fram án þess höfundur hefti það með áberandi hugsun af ásettu
ráði eða rjúfi hljómfall þess með að'skotatóni, til að leggja áherslu á efnið eða láta
athygli lesandans stansa. Ljóðlist Sophiu er svo gerólík ljóðlist Helders. Allt er
ósjálfrátt vit, ljóðviska aftur úr heiðríkju tímans, þótt ljóðið fjalli um herbergi sem
búið er í. Hvarvetna er samræmi, félagshyggja efnisins, orðanna og innihaldsins.
Ljóðið er kraftaverk hluta í eigu skáldkonunnar. Stöku sinnum heyrist endurómur
úr norðrinu, frá ljóðum Hölderlins, ómur frá heiðnum líkama. Líkaminn er alltaf
heiðinn. Sálin nærist á trú.
I síðustu ljóðabókum sínum hefur Sophia færst nær hversdagsleikanum, að
félagslegu efnisvali úr hinni líðandi stund og beitt jafnvel hæðni og beiskju. Yfir
höfuð eru ljóð hennar þó hvorki bundin stund né stað sögunnar heldur hugblæsins.
Barnabækur hennar eru ljóðrænar, líkt og ritaðar í þeirri trú að börn séu að mestu
draumur og æskan svefn sem aldurinn rýfur og vekur til nýs draums.
498