Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Síða 81
Casas Viejas
Svo vitum við ekki hvers vegna óvinurinn er nú þögulli en op á
uppurinni námu.
Kvöldið líður án fleiri árása. Okkur gefst tími til að borða. Við
hittumst í hreysi „Sexfingra" um kvöldið. Hreysið er aumt, aumara en
smalabyrgi, gamalt, óhreint, komið að hruni og minnir mig á angistina
sem ég hef þolað á öðrum álíka stöðum. Hjá „Sexfingra“ eru tveir synir
hans og sambýliskona annars, nokkrir bændur og konur. Jeronímus
Gonzalez og Manolo Quijada setjast milli okkar Kristófers. Manúela
kemur skömmu síðar í fylgd með föður sínum. Fólkið er kynlegt og
flöktandi í daufa lampaljósinu.
Manúela Lago hættir stöðugt lífi sínu við að fylgjast með aðgerðum
óvinarins og flytur okkur oft uggvænleg tíðindi:
Tveir flutningabílar eru nýkomnir með þjóðvarðliða. . . Svo er hér
liðþjálfi líka. . . Fjöldi manns hefur verið handtekinn niður frá.
Við hlustum í þögn. Athugasemdir og uppástungur manna heyrast
illa, vegna þess að næstum allir tala samtímis. Aðeins „Sexfingri" er
föðurlega kyrrlátur í elli sinni. Hin ríkjandi, sundurlausa hugmynd um
að veita mótspyrnu hljómar í eyrum mér sem eitthvað tilgangslaust. Eg
er sannfærður um að hreyfingin á Cadízsvæðinu er buguð. Kannski
höfum við sigrað um allan Spán, en hér er auðsætt að hinir stjórna. Eg
sting því einfaldlega upp á að við flýjum:
Nú er nótt; skríðum út; þeir ná okkur ekki. Allt er betra en verða
handtekinn. . . Við stöndumst ekki áhlaup.
Þögn á ný. Síðan muldrar Pétur Cruz:
Þorpið er umkringt. . .
Fernando Lago spyr:
Kom Mateo ekki aftur?
Enginn svarar. Mateo er pilturinn sem ákvað í kvöld að hringja til
félaganna í Medína og Cadíz. Þögnin er rofin. Auðsætt er að enginn vill
láta líta á sig sem gungu. Kristófer hikar jafnvel við að styðja tillögu
mína. „Sexfingri“ klykkir þá út á góðlátlegan hátt:
Við höfum engum mein gert, engan drepið, ekki kveikt í húsi —
ekkert! Ástæðulaust er að flýja. Við verjumst, ráðist þeir á okkur.
Forðumst það af fremsta megni, en vilji þeir. . . Flótti er bleyðimennska.
Orðin smita viðstadda. Ég andmæli og finnst þetta fjarstæða, skaðleg
málstað okkar sem missir þannig einhverja baráttumenn. En orðið er
áliðið og flestir samþykkja:
Enginn flýr, auðvitað!
551