Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Blaðsíða 99
Drengurinn og trumban
vændum. Jenito greip sum atriði. Faðirinn keypti þrjú eða fjögur
dagblöð á dag og ræddi ákaft um þau við vini sína. Nágrannarnir
köstuðu sífellt kveðju hver á annan og ræddust við, komu og fóru og
lásu dagblöð, drógu þau með óþolinmæði úr höndum blaðasölustrák-
anna. Hvað var að gerast? Tilgangslaust var að spyrja. Engin svör. Og
hvaða einlæga ósk og óþreyja höfðu breytt fólki, föðurnum, móðurinni,
nágrönnunum, götunni, allri borginni? Jenito fann að ef einhver andaði
varð loftið þungt, titraði heitt, þótt auðsætt væri að andþrengslin mundu
enda á ógurlegum létti. Jenito skildist að eitthvað gerðist ekki strax
heldur bráðum.
Eitt kvöldið fór faðirinn út í fylgd með frændanum, var úti í nokkrar
klukkustundir, og þegar hann kom aftur sá hann að börnin voru ekki
farin í háttinn. Hann sagði hávær við móðurina:
Göturnar eru fullar af lögreglu og skriðdrekar fram með síkinu.
Skriðdrekar? Sagði hann það? Nú skildi hann óróann. Bardagi var í
aðsigi: fánar, trumbur, hermenn. Faðirinn varð að fá sér byssu að
minnsta kosti.
Daginn eftir fór faðirinn ekki í vinnu. Hann reikaði um húsið líkur
dýri í búri. Nei, ekki dýri. Hinir voru það, mennirnir sem voru með
hattinn á höfðinu. Hann borðaði fyrr en venjulega, ýtti syninum til
hliðar, áður en hann fór í jakkann og sagði:
Farðu ekki út í dag, Jenito. Þú lofar því.
Jenito ansaði engu.
Heitirðu því?
Af hverju?
Það verður margt á götunum, kannski hróp eða að minsta kosti fólk
sem öskrar eins og á fótbolta. Vertu heima hvað sem gerist.
Verður fjöldi hér á götunni okkar?
A öllum götum, en kannski meiri hér en annars staðar. Lofarðu?
Má ég fara út í glugga?
Kannski, en varlega þó.
Hvað er um að vera? Hátíð?
Fjöldinn fer að bíða manns sem kemur með lestinni og fylgir honum
síðan. Það verður farið um hér.
Þetta var þá ekki stríð, hvorki skriðdrekar né hermenn. Einhver mikill
maður kom af fjallahóteli.
Hver er það, pabbi, knattspyrnumaður? Ur hvaða félagi?
Þetta er ekki knattspyrnumaður? Lofarðu?
569