Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Blaðsíða 31
Vilhjálmur Arnason:
Saga og siðferði
Hugleiðingar um túlkun á siðfrœði íslendingasagna'
I
Halldór Laxness hafði á því orð í inngangi sínum að „Minnisgreinum um
fornsögur“ að hann vonaðist til að sérfróðir menn fyrtust ekki við sig og
fyndist hann vera „að kássast uppá annarra manna jússur.“ (HL, 1946: 9).
Mig langar til þess að biðjast hins sama af áheyrendum mínum sem ég þykist
vita að séu flestir mér fróðari um sögurnar. Það vakir heldur ekki fyrir mér
að fræða ykkur um Islendingasögurnar; á þeim hef ég enga sérþekkingu.
Það sem mig langar til að gera er að deila með ykkur hugleiðingum mínum
um eitt tiltekið efni sem löngum hefur höfðað til þeirra sem hugsað hafa um
hinar gömlu bækur. Þetta efni er siðfræði íslendingasagna. Rétt er að taka
það fram þegar í stað að þessar hugleiðingar eru ekki afrakstur nákvæmra
rannsókna á sögunum sjálfum, þar sem siðfræðilegar ályktanir eru dregnar
af einstökum athöfnum og atburðum tiltekinna sagna. Þessar hugleiðingar
eru almennara eðlis og hafa vaknað við lestur á athugunum ýmissa fræði-
manna á þessu efni og eru viðbrögð mín við þeim. Ahugaefni mínu er e. t. v.
best lýst með því að segja að í stað þess að spyrja beinlínis hvert siðferði
söguhetjanna sé, þá spyrji ég hvernig þessu efni hafi verið gerð skil, undir
hvaða sjónarhornum fræðimenn hafi nálgast það. Við fyrstu sýn kann því að
virðast að viðfangsefnið sé túlkunarfræðilegt fremur en siðfræðilegt, þar eð
athygli mín beinist einkum að því að greina þær túlkunaraðferðir sem
rannsóknir fræðimanna á þessu efni eru til marks um. Eins og ég lít á málið,
er þetta þó einungis háttur minn á að nálgast viðfangsefnið sjálft, sem er það
siðferði sem sögurnar lýsa, en eitt fyrsta skrefið til þess er að kanna
túlkunarhefðina sem um það hefur skapast, greina forsendur hennar og
takmarkanir. Ég tel reyndar að þetta sé afar mikilvægt gagnvart því við-
fangsefni sem hér um ræðir. Siðfræði íslendingasagna er sýnd en ekki gefin.
„Kenningar eru net; einungis sá sem leggur mun eitthvað fá,“ er haft eftir
1 Greinin var flutt sem erindi á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags, 8. des. 1984.
Höf. vill þakka Vísindasjóði Islands og Rannsóknarsjóði Háskóla íslands fyrir styrki til
að hugleiða þetta efni.
21