Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Síða 56
Haraldur Bessason
Um Völundarkviðu
Fyrirlestur fluttur í boði Vísindafélags Islendinga 29. febrúar 1984.
í Sæmundar Eddu er Völundarkviðu fenginn staður milli Þrymskviðu og
Alvíssmála. Hafa fræðimenn löngum talið að hún myndi meðal elstu kvæða
í þeirri bók. Sagan um Völund sem á heima á norðurslóð, eignast konu sem
getur brugðið sér í álftarham og þreyr sambúð með manni sínum í átta ár en
hverfur síðan með systrum sínum tveim, eiginkonum bræðra Völundar, er
gamalt ævintýraminni. Kviðan um Völund er þó lengri. Skömmu eftir
konuhvarfið koma menn Níðaðar Njárakonungs í Ulfdali, meðan Völundur
er á veiðum, og ræna hann hring einum. Ekki láta þeir sitja við ránið, heldur
gera þeir, að því er virðist, Völundi aðra heimsókn og fara með hann í
fjötrum heim í konungsgarð. Það er skorið á sinar hans og hann hnepptur í
dýflissu til að þræla fyrir konung. Hefur hann þegar hér er komið sögu því
drjúga ástæðu til að koma fram hefndum. Þessi hluti Völundarsögunnar og
einnig það sem á eftir fer er kunnugt víða um lönd, og hafa fræðimenn rakið
feril sögunnar af mikilli skarpskyggni. Heimildir um Völund eru þó víða í
molum. Brot af kvæði hér og myndir klappaðar í stein eða skornar á
hvalbeinskassa þar. Heilleg er þó Völundarkviða og sömuleiðis frásagnir
Þiðrekssögu um sama efni.
Völundarkviða er fágætt listaverk, fáguð að formi og stíl. I undirdjúpum
hennar kennir ýmiss konar strauma. Stundum eru þeir hægir en þó þungir.
Stundum eru þeir bæði stríðir og hættulegir. Torræður er Völundur sjálfur
en mynd hans seiðmögnuð. Hann skríður mjúklega um fjöll norðursins, er
veðureygur og kann vel að toga í bogastreng. Þá er lífið honum gott. Brátt
fer þó að síga á ógæfuhliðina. Svanamærin kona hans hverfur með systrum
sínum, eins og fyrr segir, mjög skyndilega. Þeir bræður leita kvenna sinna
án árangurs, og þar kemur brátt að Völundur þreyr einn í Úlfdölum, bíður
heimkomu eiginkonunnar og notar hagleik sinn til að smíða handa henni
gullhringa.
„Margur ætlar mig sig,“ segir orðtakið. Tryggðin er ekki óbrigðul.
Svanmeynni seinkar. Menn Níðaðar ræna Völund einum hring af sjö
hundruð, og hefur sá baugur sýnilega búið yfir sérstökum eiginleikum.
Völundur kemur heim af veiðum, verður hringhvarfsins var, og hyggur
46