Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Qupperneq 86
Tímarit Máls og menningar
á ekkert að vera að því, ekki á meðan ég hef þessa blokk. Nú hef ég
leitað í öllum mínum vösum og það er ekkert í þeim nema vasaklútur
í buxunum og tveir 50 kr. seðlar í jakkanum. Eg var víst búinn að
leita áðan þegar ég fann blokkina. Það eru dyr lengst til vinstri á
veggnum gegnt mér og stór rúða á þeim með möttu gleri. Það hefur
enginn gengið lengi inn eða út, eða ekki hef ég tekið eftir því. Svo er
gluggi á veggnum til vinstri og snýr út í port eða svoleiðis; það sést í
aðra glugga mjög nálægt. Svo eru einhverjar dyr á veggnum sem ég sit
við, líka til vinstri út frá mér og rétt hjá laglega piltinum. Þær hljóta
að liggja inn til bankastjórans. Ég hef ekki séð neinn fara þar inn eða
út síðan ég kom, eða þá ég man það ekki. Nei, sjálfsagt er þetta nú
læknir, en ekki bankastjóri. Það gengur eitthvað að mér, ég finn það
vel sjálfur, meira en minnisleysi, en ég finn hvergi til. Mig langar til
að skrifa hér eitthvað verulega fallegt í þessa blokk, og ég þarf að
hugsa mig vel um, hvað það á að vera. I svipinn man ég ekki eftir
neinu. Eg á það heima sem aldrei gleymist né umbreytzt fær, við
ölduhreiminn mig ávallt —. Nú var konan á móti mér (hún er með
biksvart hár) að taka upp spegil og spegla sig, hún varð illileg á
svipinn í spegilinn og glennti sundur munninn og speglaði í sér
tennurnar, svo reigði hún sig alla eins og hún vildi sýna manni
fyrirlitningu, fleygði svo speglinum í veskið sitt. Nú situr hún með
lokuð augun og alveg gersamlega hreyfingarlaus og hnakkakerrt. A
ég að ganga til hennar og biðja hana um að lána mér spegilinn? Nei,
ég þori það ekki. En líklegt þykir mér, að það myndi hjálpa mér
eitthvað ef ég gæti séð hvernig ég lít út í andliti. Eg hlýt að þekkja
minn eigin andlitssvip, og að minnsta kosti get ég ekki verið alveg
sviplaus með þetta mikla og dökka skegg. Nú fannst mér ég vera að
muna eitthvað —. Eg er búinn að ákveða að láta hana eiga sig. Hún er
svo illileg. Hún bítur saman vörunum svo þær sjást varla, eins og
munnurinn á henni var flennistór bara rétt áðan. Nú tekur sköllótti
maðurinn upp enn eina sígarettu og kveikir í með kveikjara, hann
næstum keðjureykir, ég held hann sé líka sá eini sem reykir hér inni,
og áðan heyrðist mér hann vera að segja eitthvað og brosa upp í
loftið. Hann var örugglega að tala við sjálfan sig, en lágt. Hann er
dálítið órólegur, sérstaklega í augunum þegar hann lítur upp. Ekki
langar mig í sígarettu eða neitt tóbak. Sem er eins gott, því ég er ekki
með neitt slíkt á mér. Hef ég máski aldrei reykt? Sjálfsagt ekki. Jæja.
76