Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Blaðsíða 137
Umsagnir um bækur
Hví skyldi vera merkingarlaust
að mynnast út í þögnina. . . (25)
Hann varpar því fram að þrátt fyrir
endanlegan dauða gæti Guð samt sem
áður verið til. En röksemdafærsla þeirra
sem á eilíft líf trúa hefur tíðast verið á þá
lund að tilvist Guðs feli það í sér.
Eitt ánægjulegasta merki þróunar er
hófst með Heimkynnum við sjó er aukin
hugsun um skáldskapinn, vandann að
yrkja sem og tilgang og markmið ljóð-
listar í þessum heimi. Heimkynni við sjó
hefur að geyma mörg ljóð um þetta efni
sem var talsverð breyting frá fyrri
bókum. I einu ljóðanna þar kemur t. d.
skýrt fram hvaða hlutverk Hannes ætlar
ljóðum sinum, — að hverju góður skáld-
skapur á að stefna:
Ljóð mín bíða mynda
sem merkingum hnika til
sundra þó ekki hlutunum
en sýna þá snöggt, svo þeir hrökkva
upp af dásvefni þungum
sem dagarnir læsa þá í. . . (Heimk. 8)
36 Ijóð er rökrétt framhald þeirrar stefnu
er þetta ljóð boðar og í henni er að finna
mörg tilbrigði við þetta margslungna og
furðulega yrkisefni tuttugustu aldar, —
menn yrkja um að yrkja og úr verður
margræður skáldskapur! I þessari bók
eru m. a. endurminningar skáldsins frá
fyrsta fitlinu við skáldskap, — feimni
hins óframfærna unglings og virðing
hans fyrir ljóðmálinu. En kannski er
komist næst skoðunum Hannesar á eðli
skáldskaparins í ljóði 14 sem ber yfir-
skriftina Til skálds í útlöndum og ég
ímynda mér að gæti verið Hölderlin.
Eg les þig — og ég ferðastl
feyki burt myglu sjónarinnar —
endurnýjast
við óvænta staðhætti:
orð hvílir
innar hinu sem er notað
og hugmynd hvílir
í hugmynd annarri. (14)
En skáldskapur er víðfeðmt hugtak og
fleira er skáldskapur en orðlistin ein.
Ljóðið um glerlistamanninn aldna er eitt
minnistæðasta Ijóð bókarinnar. Þar túlk-
ar Hannes tilfinningar listamanns sem
finnur að sköpunarmáttur hans fer
þverrandi. Angist og einsemd hins aldna
manns er man sín frjóu ár, tíma innblást-
urs og krafts, en þarf nú að horfast í
augu við hrörnun og hrumleika, — þó á
hann sér enn eilitla von.
Og hann væntir þess
á viðburðalausum stöðum
að fuglinn blái
fljúgi sem eitt sinn, fljúgi!
gegnum augu hans
með eld undir vængjum.
O megi hann steypast eldvængjaður
gegnum augu hans! (23)
Þungbært hlutskipti listamannsins og
þær flóknu kenndir sem leika um huga
hans verða lesanda áleitnar sakir þess
næmleika og innsæis er býr í ljóðinu.
Mörg þessara ljóða eru persónuleg á
þann hátt að í þeim flestum er ákveðinn
mælandi og það „ég“ má oft heimfæra
upp á Hannes Pétursson, sé miðað við
almenna vitneskju um bakgrunn hans og
uppruna. En ljóðin eru hins vegar fjarri
því að vera sjálfhverf eða hringsól einka-
legra vandamála. Skáldið býr ljóðunum
einatt þann listræna búning að t. d. pers-
ónulegar minningar úr bernsku verða
127