Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 33
Hugarfarssaga
fólginn munurinn á hugmyndasögu í hefðbundinni mynd og því, sem nú er
kallað hugarfarssaga: hugmyndasagan fékkst ekki nema við ákveðin merkja-
kerfi (leiddi t. d. hjá sér hátíðahöld, seremóníur, mannasiði og slíkt) og
takmarkaðist gjarnan við það sem nefnt hefur verið „hámenningarfyrir-
bæri“, — hún rannsakaði t. d. þróun og feril hugmynda eins og þær komu
fyrir í verkum viðurkenndra heimspekinga og hugsuða og klofaði þá
kannske yfir hálft árþúsund, t. d. frá Aristótelesi og Stóuspekingum yfir í
nýplatónisma. A hinn bóginn felst það beinlínis í aðferðum hugarfarssög-
unnar að hún verður að fjalla um „heim merkjanna“ í heild og því er ekki
nein ástæða fyrir hana að greina „hámenningarfyrirbæri“ frá öðrum fyrir-
bærum, sem hún fjallar um, eins og Jacques Le Goff vildi þó gera, og ýta
þeim á einhvern hátt til hliðar. Vitanlega er ekki hægt að útiloka verk eftir
stórsnillinga úr „corpus" grafreitalistaverka — reyndar má búast við að þau
hafi haft áhrif á önnur verk og mótað „tísku“. A sama hátt er Hinn
gubdómlegi gleðileikur Dantes ómissandi hluti af „corpus" þeirra texta
miðaldanna sem fjalla um hreinsunareldinn eða gefa til kynna trú manna á
þann sérstaka skemmtistað.
Rannsókn hugarfarssögunnar á „heimi merkjanna“ leiðir síðan í tvær
áttir: annars vegar til hugmyndanna að baki merkjunum sem þau breiða út
eða birta, hins vegar til þeirrar hegðunar — eða þeirra atburða — sem
útbreiðsla merkja og áhrif þeirra hafa í för með sér. Þessar hliðar eru
nátengdar og mynda í heild hið raunverulega verkefni hugarfarssögunnar.
Til að útskýra afstöðu þeirra nægir að nefna eitt dæmi, sem tekið er úr riti
Jean-Louis Flandrin frá 1983 um viðhorf kirkjunnar til kynferðismála í
byrjun miðalda, Að faðmast hefur sinn tíma (sbr. Prédikarann 3,5). A þessu
tímabili hafði kirkjan ákveðnar kenningar um ástalíf manna, sem voru
reyndar þannig til orðnar, að ýmis konar bönn, sem trúflokkar og
heimspekiskólar fornaldarinnar höfðu fundið upp hver í sínu lagi, voru
sameinuð í einn stóradóm, en kirkjan setti þennan boðskap ekki skipulega
fram og reyndi ekki beinlínis að réttlæta hann. Þessi afstaða til kynlífs leiddi
af sér ákveðin merki, sem þó má ekki rugla saman við kenningarnar sjálfar,
því að tilgangur þeirra var ekki sá að skýra þær heldur að hafa áhrif á menn:
verður þar fyrst að nefna handbækur fyrir skriftafeður sem segja hve mikla
iðrun og yfirbót þurfi fyrir brot á hverju banni, og svo prédikanir og
fortölur þessara skriftafeðra, sem hafa að mestu leyti verið „stundleg merki“
og ekki eru heimildir um lengur nema að mjög litlu leyti. Loks hafði þessi
boðskapur kirkjunnar að öllum líkindum viss áhrif á hegðun manna,
a. m. k. þeirra sem strangtrúaðir voru.4)
Fíér hefur það sem er að baki merkjunum verið kallað einu nafni
„hugmyndir“, og hefur orðið verið notað í mjög víðri merkingu eins og
431