Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Qupperneq 36
Tímarit Máls og menningar
íslendingar á söguöld hafi verið stórir vexti og afrendir að afli, o. þ. h. í
sameiningu mynda slík trúarbrögð og skoðanir það sem kalla mætti lífs-
skoðun eða heimssýn hvers tíma í þröngri merkingu og sagnfræðingurinn
verður að finna við rannsóknir og túlkun á heimildum, þar sem heimsmynd
af þessu tagi er ekki sett fram skipulega sem slík.
5) Loks verður að telja kerfisbundnar kenningar heimspekinga og hugs-
uða, sem eru settar fram á skipulegan hátt í ritum þeirra. Ekki má rugla
þessum heimspekikerfum saman við þá heimssýn sem nefnd var hér að ofan,
en margvísleg tengsl geta verið á milli þeirra, því að ýmsar skoðanir eða
jafnvel heimssýn geta verið einföldun eða myndbreyting á heimspekikerfi,
og svo getur heimspekikerfið verið rökrétt og skipuleg útfærsla á því sem
upphaflega var samsafn skoðana og trúaratriða.
Þótt hægt sé að greina lauslega milli þessara stiga, er ólíklegt að skiptingu
af þessu tagi megi nota sem formlegan grundvöll hugarfarssögu, því að í
fjölmörgum flóknum fyrirbærum mannlífsins koma þau sennilega öll meira
eða minna við sögu. Afstaða manna til dauðans getur t. d. verið — og er
sennilega oftast — tilfinning (ótti og angist, sem virðast vera breytileg og
mismikil), viðhorf (er dauðinn eðlilegur og nauðsynlegur eins og Lúkretíus
hélt fram eða er hann „hneyksli" í sjálfu sér?), skoðun eða trú (er til
framhaldslíf eða ekki ?), og heimspekikenning (eins og þær sem Plató og
Epikúr héldu fram). Einnig er líklegast að um dauðann séu til goðsögur eða
þá mýtur af einhverju tagi, og er þá ekki aðeins átt við söguna um manns
soninn sem sté niður til heljar, heldur einnig alls kyns þjóðsagnamynstur
eins og söguna um svartklæddu konuna þöglu sem veifaði bíl í Garðabæ að
næturþeli og var svo allt í einu horfin í grennd við sáluhliðið í kirkjugarðin-
um í Kópavogi.
I víðustu merkingu má segja að það séu fyrirbæri allra þessara „stiga“ sem
skapa í sameiningu heimsmynd hvers tíma — heildarsafn þeirra hugmynda
sem liggja að baki merkjunum. En erfitt er að greiða úr þeirri flækju, og er
það kannske eitt helsta vandamál hugarfarssögunnar nú að hafa enga
haldbæra kenningu til þess. Til að sigla fram hjá því skeri reyna sagnfræð-
ingar að afmarka rannsóknarsvið sín svo skýrt, að ekki verði á það deilt, og
mætti jafnvel flokka verkin í stórum dráttum eftir því hvaða leiðir eru farnar
til þess. Ein vinsælasta leiðin er sú að rannsaka í sögunnar rás einhverja
„grundvallartilfinningu" mannlífsins eða afstöðu manna til einhverra
„grundvallarfyrirbæra“, og hafa mörg dæmi þegar verið nefnd, en fleiri
mætti taka til: afstöðu manna til barna, til náttúrunnar o. s. frv. Slíkar
rannsóknir ná yfirleitt til allra þeirra „stiga“ sem áður voru nefnd, jafnt
tilfinninganna sjálfra, margbreytilegra viðhorfa, kenninga o. þ. h., en gall-
inn er sá, að þá er gjarnan gengið út frá því að fyrirbærin, sem verið er að
434