Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Qupperneq 44
Tímarit Máls og menningar
þau koma fram í myndum, málfari, táknrænum bendingum, helgisiðum eða
félagsvenjum.
Þegar áherslan færist á þennan hátt frá hugmyndum menntaðra
úrvalshópa til hugarfars almennings, hverfur smám saman aðgreining-
in milli hámenningar og alþýðumenningar. (Hutton 1981:238—39)
Þetta hljómar vel en viðurkenna ber að það reynist óhemju erfitt að „færa
áhersluna til.“ Þegar bernskusagnfræðingar fjalla t. d. um samfélög fyrir
iðnbyltingu, er hávaðinn af tiltækum ritheimildum ýmis konar skjöl sem
varða á einhvern hátt hugmyndir og gildi yfirstéttarinnar. Og þó að notaðar
séu aðrar heimildir en hinar skriflegu, reynist ámóta erfitt að nálgast
hugarheim alþýðu eins og hið fræga rit Ariés er til vitnis um. Um leið og
lýst er „bernskuvitund“ (sentiment de l’enfance) ákveðins tímabils hneigist
sagnfræðingurinn til að færa yfir á heildina hugmyndir sem hafa að öllum
líkindum aðeins verið einkennandi fyrir lítið brot af íbúunum. Af þessu
leiðir að nauðsynlegt er að gefa gaum að sambandi hugmyndafræði og
hugarfars annars vegar og hins vegar hvernig ómeðvitaðar/meðvitaðar
ástæður orka á hugarfarsþróunina.
Hugtakið hugarfar hefur oft verið notað í óljósri merkingu. (Hagen 1984:
6—7) Sumir höfundar láta það ná yfir bæði skýrt orðaðar hugmyndir og
óyrt, tilfinningahlaðin viðhorf. Eins og Robert Mandrou notar hugtakið,
táknar það m. a. vel skilgreinda hugmyndafræðilega þætti. (Mandrou
1974:331—4) Aðrir höfundar, t. d. Ariés, Jacques Le Goff og Michel
Vovelle, vilja aftur á móti gera meira úr hinum ómeðvituðu og duldu
þáttum. Með hinu ómeðvitaða á Ariés við í þessu sambandi það sem
menn á hverjum tíma skilja illa eða taka alls ekki eftir vegna þess að
það er sjálfgefið, hluti af óbreytilegri, náttúrlegri skipan — viðteknar
hugmyndir, siðareglur, sæmdarhugmyndir, hið viðurkennda og hið
forboðna . . . (Ariés 1983:55)
A síðustu árum hefur þessi síðarnefndi skilningur á viðfangsefni hugarfars-
sögu, þ. m. t. bernskusögu, rutt sér til rúms: hugarfarssaga fjallar nú í
vaxandi mæli um almenningsviðhorf og kenndir sem birtast í athöfnum,
bendingum eða jafnvel draumum. (Vovelle 1982:87)
Hvað sem þessum skilgreiningum líður, sýnist gagnlegt að greina hér á
milli hugmyndafrxbi og hugarfars, einkum þegar ræðir um breytingar á
hugarfari almennings. Með hugarfari er þá átt við almennar, undirvitaðar
eða ómeðvitaðar hugmyndir og viðhorf, eins og áður er vikið að, en
442