Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 50
Tímarit Máls og menningar
Þetta minnir óneitanlega á suma mannfræðinga 19. aldar sem litu á
„innfædda" sem börn með vanþróaða vitsmuni og tilfinningar en sem
smám saman „yxu upp“ í siðmenningu.
Macfarlane sýnir vel við hvern vanda er að etja þegar reynt er að rekja
þróun bernskunnar út frá tölulegum gögnum eða leifum sem eiga rót að
rekja til opinberrar stjórnsýslu. Hér á eftir verður rætt um hvernig þessi
túlkunarvandi horfir við þegar reynt er að meta hann út frá sjónarhorni
hinna sögulegu gerenda sjálfra.
V
Túlkun Shorters og Stones á uppeldisvenjum í vestanverðri Evrópu á margt
sammerkt með mati embættismanna sem vitnað var til að framan eftir
skýrslum þeirra. Þetta er eflaust ekki tilviljun þar sem hinir fyrrnefndu,
einkum Shorter, nota mest slík sönnunargögn. (Stone byggir að vísu talsvert
á sjálfsævisögum en Macfarlane færir rök að því að víða gæti hlutdrægni í
meðhöndlun hans á þeim. (Macfarlane 1979:115-16)) Vissulega er hér um
samtímaheimildir að ræða en þær sýna hugmyndafræðilegan skilning á
uppeldisvenjum almennings. Þegar Shorter og Stone nota þessar heimildir
til að túlka lýðfræðileg gögn í ljósi hugarfarssögu, hneigjast þeir til að meta
þau út frá sinni eigin samtíð (presentistic tendency) — eins og virðist raunar
innbyggt í skýringarlíkan kenningarinnar sem sýnir alla þróun stefna í átt til
nútíma (modernization theory).
Enginn þrætir fyrir að rannsóknir í lýðfræði og fjölskyldusögu hafa
varpað skýru ljósi á hinar breytilegu félagsaðstæður bernskunnar fyrr á tíð;
en á síðustu árum hefur mönnum orðið starsýnt á takmarkanir tölfræðilegra
aðferða, ekki síst þegar fjallað er um hugarfarssögu. Af þessum sökum hafa
ýmsir sagnfræðingar tekið að nýta sér upp á síðkastið aðferðir mannfræð-
innar. Um þetta segir David I. Kertzer m. a.:
Um leið og sagnfræðingar hafa í vaxandi mæli farið að fást við
félagssögu sem beinir athygli að ólæsum og óskrifandi almúganum,
hafa þeir rekið sig á vanda sem mannfræðingar hafa glímt alllengi við,
þ. e. sambandið milli frásagna þeirra af lífi fólks og táknkerfisins sem
mótar skilning þessa fólks á eigin umhverfi... margir mannfræðingar
og sagnfræðingar hafa leitað leiða er geri kleift að láta fólkið, sem
verið er að rannsaka, tala fyrir sig sjálft með nokkrum hætti í stað þess
að því sé raðað snyrtilega á bekk til krufningar eftir fyrirframgerðum
forskriftum. (Kertzer 1984:203—4)
448