Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 112
Magnús Fjalldal
Lítil saga af tveimur tökuorðum
í íslenzku
Tungumál eru að því leyti lík fornminjum, sem við gröfum úr jörðu, að úr
þeim eða öllu heldur orðum þeirra, má lesa langa og oft mjög fróðlega sögu.
Hér á ég ekki við þá sögu málbreytinga, sem málvísindamenn sinna, heldur
sögu um fólkið í landinu fyrir ævalöngu, hugmyndaheim þess og margvísleg
viðhorf. En hvernig í ósköpunum getum við vitað, hvað fólk var að hugsa
fyrir til að mynda þúsund árum? Jú, það getum við meðal annars lesið út úr
fornum tökuorðum í íslenzku. Tökuorð eru í eðli sínu gestir, sem stundum
koma og fara, eða verða þaulsætnir, eða þá ílengjast og samlagast málinu svo
vel, að við hættum að taka eftir því, að þeir eru útlendingar. Tökuorð verða
alltaf til af þörf. Þeir sem þau nota fyrstir halda alltaf — með réttu eða röngu
—, að þeir hafi uppgötvað einhverja hugmynd eða hugtak, sem ekki
fyrirfannst í málinu áður, og sé það rétt verður sérhvert tökuorð til þess að
auka sameiginlegan merkingarforða málsins, hvort sem okkur líkar það
betur eða verr.
Við skulum að gamni skoða tvö dæmi um tökuorð af þessu tæi, annað að
fornu, en hitt að nýju, en bæði ættuð úr ensku. Fyrra orðið er frá þessari öld
og líklega frá amerískum hermönnum á stríðsárunum. Þetta er orðskrípið
„kornflex," sem vonandi fær hárið til að rísa á höfðum þeirra, sem reyna að
vanda mál sitt. Satt er það, að vitlaust og ambögulegt er þetta orð, en þó
ekki nærri því eins galið og tökuorðið „guðspjall“, sem við fengum að láni
úr fornensku fyrir um það bil 1000 árum og fæstir mundu víst gruna um
græsku.
Skyldleiki þessara tveggja orða er kominn til með þeim hætti, að í báðum
tilvikum reynir íslenzkan að líkja eftir framburði þeirra á enskri tungu.
„Kornflex" er á ensku borið fram [k :cnfleiks], en líklega hefur þeim, sem
fyrstur potaði þessu orði inn í íslenzka tungu þótt [ei]-hljóðið stutt og gert
það að [e]. Hins vegar er það sem gerir orðið svo afkáralegt í íslenzku,
hversu mjög það afbakar hina réttu merkingu hins bandaríska orðs. „Corn“
í amerískri ensku þýðir nefnilega ekki korn almennt (eins og það gerir í
510