Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 113
Lítil saga af tveimur tökuorðum
brezkri ensku, hér nota Ameríkanar orðið „grain"), heldur jurtategundina
maís. „flex“ þýðir svo nákvæmlega ekki neitt í íslenzku eftir því sem bezt er
vitað, en „flakes" á ensku er samstofna flögum á íslenzku. Það má því til
sanns vegar færa, að hér hefði verið betra að tala um maísflögur, en í því efni
verður varla neinu breytt, því að tungumál eru ekki þægari heldur en þeir
sem tala þau og hegða sér því miður ekki alltaf sem bezt.
Guðspjall er ættað úr fornensku. Það er upphaflega tvö orð, lýsingarorð-
ið „gód“, þ. e. góður og „spell“, sem í fornensku merkir fréttir eða tíðindi.
Þetta er sumsé orðrétt þýðing á gríska orðinu „evangelium", sem táknar
fagnaðarboðskap eða góðar fréttir. Seinna runnu bæði orðin saman, og
líklega hefur verið farið að rita þau í einu orði og án þess að setja
lengdarmerki á fyrri sérhljóðann (þ. e. godspell), þegar Islendingar komust
fyrst í kynni við það. Hin íslenzka útgáfa orðsins er að sjálfsögðu komin til
með kristninni, og hún er að mörgu leyti enn vitlausari en kornflexið, og er
þá langt gengið. Við skulum nú doka ögn við og rýna í, hvað lesa megi út úr
orðinu guðspjall á íslenzku.
Ef við reynum á annað borð að lesa eitthvað út úr orðinu, þá gæti manni
dottið það fyrst í hug, að fagnaðarerindið væri fólgið í því að spjalla við Guð
almáttugan. Hræddur er ég um, að sprenglærðir guðfræðingar hefðu eitt-
hvað við þá túlkun að athuga. Þó er hún einkar sakleysisleg miðað við þá
möguleika, sem blasa við, ef lengra er haldið. Við skulum til að mynda
hugleiða sögnina að spjalla í íslenzku, þ. e. a. s. í merkingunni að skemma
eða ónýta, og ef enn lengra er haldið og litið á orð eins og sifjaspell og
spjallaðar meyjar, erum við farin að fremja hreinasta guðlast, og það á sjálfu
fagnaðarerindinu.
Því er oft varpað fram, að málskyni fólks og máltilfinningu fari sífellt
hnignandi, og þeir sem lengst ganga í slíkum ásökunum mundu eflaust bæta
því við, að slík andans úrkynjun hefði hafizt þegar á 14. öld, er bókmennta-
leg gullöld Islendinga leið undir lok. Það má svo sem vel vera, að þessi
kenning sé rétt, en eitthvað finnst mér samt, að málsmekk þeirra kristni-
tökumanna hafi verið áfátt daginn sem að orðskrípið „guðspjall" fæddist.
511