Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Side 7
FRAMHJÁ þögnuðuholtum
meðferðin á þeim hluta óbyggðanna sem notaður hefur verið sem beitiland.
Þessi sorgarsaga fékk hinsvegar engan samastað í kveðskap íslenskrar sveita-
menningar. Á sama tíma og náttúrunni var spillt í sífellu og auðlegð hennar
sóað ortu skáldin hugnæm kvæði um hið fagra föðurland með blóm í dal og
björk og lind í hlíð og fjöll sem rísa í sunnanblæ á meðan jörðin teygar loftsins
vín, og þar fram eftir götunum. Myndir úr náttúrunni hafa allt frá tíma
rómantíkur verið mjög algengar sem umgerð og skreyting í íslenskum
kveðskap.
Skilningur á vistkreppu og náttúruvernd vaknaði seint hér á landi en á
seinustu áratugum hefur hann aukist og ýmislegt er nú reynt til að sporna
við eyðingunni sem enn fer þó vaxandi. Að sjálfsögðu er fjallað um hinar
ógnvænlegu afleiðingar rányrkju og mengunar í fræðiritum, en skáldin tjá
sjónarmiðin á annan hátt og höfða til annarra eðlisþátta mannsins en
raunvísindin. í þessari umfjöllun er hugtakið „náttúruljóð" notað um þau
ljóð sem tjá íhygli og þroskaða vitund um ríki náttúrunnar.
Af íslenskum skáldum hefur Stefán Hörður Grímsson fyrstur og skilmerki-
legast ort um náttúruna frá vistfræðilegu sjónarmiði. Hann hefúr deilt á
framferði mannsins sem tortímir náttúrunni og bent á rányrkjuna og varað
við afleiðingunum. Þessi ljóð Stefáns Harðar eru misjafnlega skorinorð,
ýmist harðskeytt eða kaldhæðin eða hógvær áminning með alvarlegum
undirtóni. Þungi ádeilunnar er jafhan fólginn í sterkum myndum, fáguðu
orðfæri og orðsköpun sem lýsir einstakri hugkvæmni í að búa um ferskar
líkingar og víðtæka hugsun í nýjum orðum. Þess ber að geta að Stefán
Hörður hefur einnig ort náttúruljóð sem ekki beinast að vistfræðivandan-
um, heldur lýsa náttúrunni sem frumlægu afli og áhrifum hennar á skynjun
og sálarlíf manna. Eitt hið þekktasta þeirra er Vetrardagur þar sem brugðið
er upp tærum, köldum og kyrrum myndum af íslensku vetrarlandslagi, en í
lokaerindinu gengur maðurinn inn í þetta harðfrosna, stórbrotna landslag
og er ærið smár í umhverfinu:
Á mjóum fótleggjum sínum
koma mennirnir eftir hjarninu
með fjöli á herðum sér.
(Svartálfadans)
Viðhorfin í hinum vistfræðilegu náttúruljóðum Stefáns Harðar einkennast
af varnaði gegn eyðingu náttúruríkisins, bæði manna og annars lífs, ádeilu
á mengun umhverfisins, og ennfremur heldur hann fram rétti lífsfyrirbæra
í ýmsu formi gagnvart yfirgangi og rányrkju mannsins. Ljóðin spanna hin
TMM 1997:4
5