Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Side 22
ATLl HEIMIR SVEINSSON
3
Kennarar mínir og fyrirmyndir voru 10-15 árum eldri en ég, og höfðu allir
upplifað heimsstyrjöldina síðari. Það var skrítið fyrir ungan mann sem kom
frá landi þar sem stríðsgróðaskattur var lagður á efnamenn og betri borgarar
töluðu lengi um „blessað stríðið“, að kynnast þessu fólki. Ég held að við
eyjaskeggjar úr norðrinu gerum okkur ekki grein fyrir því hversu yfirgengileg
þjáning stríðið, nasisminn og síðar kommúnisminn var. Og fyrir millistétt-
arungling frá einangraðri, hálfdanskri nýlendu bak við heiminn - þar sem
nýlega hafði verið stofnað lýðveldi - framkölluðu kynnin af svokallaðri
heimsmenningu dálítið sjokk á þessum árum.
Ég kom til Þýskalands tvítugur, í miðju efnahagsundrinu og kalda stríðinu.
Þeir sem voru 10-15 árum eldri þökkuðu sínum sæla fyrir að hafa lifað af
djöfulganginn. Ég lærði hefðbundið handverk tónsmíðanna hjá Gunter
Raphael, stórmerku tónskáldi af Gyðingaættum og fékk þar með innsýn í
harmsögu þeirrar þjóðar. Síðar bjó ég í Hollandi í skjóli annars Gyðings,
Walters Maas. Einnig kynntist ég kaþólsku kirkjunni á þessum árum og
dvaldist um tíma í klaustri hjá Benediktusarmúnkum. Þau áhrif fylgdu mér
og löngu síðar tók ég kaþólska trú. Ég hef álitið það mikið lán að vera
uppfóstraður hjá gyðingum og múnkum.
Hér heima hafði ég lært á píanó hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni, og var
liðtækur píanisti. Hann lét mig spila verk eftir Prokófíeff og Bartók, og það
þótti djarft í þá daga. Frönsku impressjónistunum hafði ég kynnst hjá
Guðmundi Jónssyni píanóleikara og mér verða alltaf ógleymanleg fyrstu
kynni mín af þeim. Nóturnar voru fullkomlega ólesanlegar og óskiljanlegar.
En þá strax vildi ég stríðari hljóma!
Áður en ég hélt utan voru Webern og Stockhausen fyrirmyndir mínar. Hér
heima á íslandi hafði ég heyrt Tríóið opus 21 eftir Webern, og Söng ungling-
anna eftir Stockhausen. Einnig hafði Jón Nordal lofað mér að hlýða á
Zeitmasse eftir Stockhausen og Le marteau sans maitre eftir Boulez. Ég var
óskaplega hrifinn og þessari tónlist vildi ég kynnast. Þetta var veganestið.
Svo kynntist ég samtímatónlistinni í Köln og hreifst með. Stockhausen,
König, Zimmermann og Cage mótuðu mig öðrum fremur.
Annars var ég - og er - alæta á tónlist. Það hefur svo margt gott komið
fram af ólíkum toga, sem auðgað hefur líf mitt. Ég hugsa um verkið sjálft,
ekki stefnuna sem það telst til eða höfundinn. Það er aðeins ein stjarna í
tónlistinni, sagði Mahler: verkið sjálft.
Mér finnst alltaf undarlegt þegar gamaldags tónskáld þykjast ekki tilheyra
neinum ismum. Það er ekki hægt að stilla upp klassík annars vegar, sem á að
vera góð, eilíf, og ismum hins vegar, sem eiga að vera skammlífar tískustefnur,
20
TMM 1997:4