Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Page 113
LÍTIÐ SVAR VIÐ LÖNGU BRÉFI
engu við skýrleika eða fegurð íslenskunnar, en ryður út myndrænu íslensku
orðafari og er engum til góðs nema þeim málfarsfrjálshyggjumönnum sem
þarna finna enn eitt dæmi um eðlilega þróun tungunnar.
Ég hygg að hvorki Böðvar Guðmundsson né neinir aðrir þurfi að óttast
að við sem erum að amast við dönskuslettum, og öðru því sem ég leyfi mér
að kalla málspjöll, höfum nokkur áhrif á varðveislu tungunnar. íslensk þjóð
er á síðustu árum á hraðferð í auðvaldsskipulagið, og í því þjóðskipulagi er
ekki einkum áhugi á að almenningur tali og skrifi gott mál, heldur hvort allur
almenningur sé góður markaður. Þeir sem nenna að hlusta á einkarekið
útvarp og sjónvarp á íslandi, eða lesa glanstímaritin sem blómstra um þessar
mundir, geta fljótlega komist að raun um hvort markmiðið það er sem meiri
áhersla er lögð á í þessum fjölmiðlum. Og auðvitað á hver og einn það við
sjálfan sig á hvora sveifina hann snýst.
Ég veit ekki hvort Böðvar hefur sama sið og ég þegar hann kemur heim til
fslands eftir langa dvöl í údöndum: að fá sér glas af köldu vatni. Séra Sigurður
Pálsson, sem lengi var prestur í Hraungerði, sagði mér eitt sinn að hann gripi
oft hómilíubókina gömlu og læsi smákafla. „Það er eins og að fá sér glas af
góðu víni,“ sagði hann. Ég hef á undanförnum árum lesið fáeinar nýjar
íslenskar skáldsögur, yfirleitt prýðisgóðar bókmenntir, að því einu undan-
skildu að mér virðast höfundarnir ekki hafa náð nægilega góðum tökum á
tungumálinu. Mér hefur ekki fundist það leika í höndunum á þeim, og of
sjaldan sem maður rekst á setningu eða málsgrein sem manni finnst að gæti
ekki verið betri. Og þá er líklega vissara að taka fram, áður en einhverjum
dettur í hug að snúa út úr þessum orðum mínum, að vitanlega ætlast ég ekki
til að sama listræna íslenskan sé lögð í munn öllum persónum sagnanna.
Slangur getur líka verið galdratól, ef menn kunna að beita því. En eftir lestur
sumra þessara bóka hef ég gripið í Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness og
lesið mér til hugsvölunar og notið þess eins og kalda vatnsins á íslandi þegar
ég hef komið heim frá útlöndum.
En svo ég víki aftur að bréfi Böðvars og kryddinu: Sumar tegundir krydds
eru þess eðlis að þær hafa óæskilegar verkanir í meltingarfærunum, einkum
ef kryddið er notað í óhófi. Og þá kemur það sem í þessari gömlu gátu (í
nýlegum búningi) segir og vel mætti hafa um síðustu málsgreinina í bréfi
Böðvars:
Aldrei verður yndi vífs
þó undir nára glæðist;
andríkur þó án sé lífs
æpandi hann fæðist.
Og hver er hann?
TMM 1997:4
111