Milli mála - 01.06.2014, Blaðsíða 11
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
Milli mála 6/2014
14
inni verður reynt að gefa innsýn í helstu þætti sem ætla má að hafi
haft áhrif á dönskukunnáttu landsmanna og tök þeirra á málinu.
Hægt er að læra erlend tungumál, t.d. dönsku með beinum
hætti, þ.e. með því að umgangast Dani og hafa samskipti við þá.
Þannig geta Íslendingar lært að skilja og tala dönsku í samskiptum
við Dani hér á landi, þar sem þá er að finna, eða með því að dvelja
sjálfir í dönsku málumhverfi ytra um skemmri eða lengri tíma. Til
að maður nái tökum á lestri danskra texta, þurfa þeir að vera innan
seilingar og einhver tilgangur með því að lesa þá. Nú má spyrja,
hvort aðstæður hafi verið til staðar á nítjándu öld til að læra að tala
eða lesa dönsku með beinum hætti, og ef svo er, þá hvar, og fyrir
hverja. Voru t.d. tækifæri til að tileinka sér málið þau sömu til sveita
og í þéttbýli? Og einnig má spyrja hvort þær aðstæður, þar sem
reyndi á tjáskipti á dönsku, hafi tekið til bæði talaðs máls og ritaðs
og jafnt viðtöku sem tjáningar á málinu. Tileinkun dönsku getur
einnig átt sér stað með óbeinum hætti í námi undir handleiðslu
kennara, annaðhvort heima eða í skólum. Forsenda þess að slíkt
nám eigi sér stað, er að það sé í boði. Og þá má einnig spyrja, hvort
danska hafi verið kennd hér á landi á nítjándu öld og þá hvar og
hverjir hafi notið kennslunnar. Loks má nefna sjálfsnám, sem ein-
staklingar geta stundað af eigin hvötum í ólíkum tilgangi og sam-
hengi, en forsenda slíks náms er að áhugi eða löngun sé til staðar
hjá einstaklingnum til að hefja nám af sjálfsdáðum, t.d. í erlendu
tungumáli. Á undanförnum árum og áratugum hafa kenningar um
mikilvægi hvata fyrir tungumálanám verið í brennidepli.1 Í kenning-
um Gardners og Lamberts2 um hvata er gerður greinarmunur á
verktengdum hvata (e. instrumental motivation) og aðlögunartengdum hvata
(e. integrative motivation). Verktengdur hvati getur t.d. verið sprottinn
af miklum áhuga á að kynnast ákveðnu innihaldi, sem er miðlað
með tungumálinu, t.d. þegar menn leggja sig fram um að ná tökum
1 Sjá t.d. Robert C. Gardner og Wallace E. Lambert, Attitudes and Motivation in Second-Language
Learning, Massachusetts: Newbury House Publishers, 1972; Robert C. Gardner, „Social
Psychological Perspective on Second Language Acquisition“, The Oxford Handbook of Applied
Linguistics, ritstj. Robert B. Kaplan, Oxford: Oxford University Press, 2002, bls. 160–169;
Zoltán Dörnyei og Ema Ushioda, Teaching and Researching Motivation, Harlow: Pearson
Education Limited, 2011.
2 Robert C. Gardner og Wallace E. Lambert, Attitudes and Motivation, 1972, bls. 12–14.