Milli mála - 01.06.2014, Blaðsíða 154
ALEXANDER PÚSHKÍN
Milli mála 6/2014
164
– Hann er alltaf að gera að gamni sínu, greifynja, svaraði Silvio
henni, – einu sinni gaf hann mér utan undir að gamni sínu, hann
skaut í gamni í gegnum þennan hatt og nú hitti hann mig ekki, allt í
gamni og nú er komið að mér að gera að gamni mínu …
Og með þeim orðum miðaði hann á mig … að henni við-
staddri. Masha kastaði sér að fótum hans.
– Stattu upp, Masha, þetta er skammarlegt! hrópaði ég viti mínu
fjær, – en þér herra minn, ætlið þér ekki að hætta að hæðast að
vesalings konunni? Ætlið þér að skjóta eða ekki?
– Ég ætla ekki að skjóta, svaraði Silvio, – ég er ánægður, ég hef
séð skelfingu þína og kjarkleysi. Ég fékk þig til að skjóta á mig, ég er
ánægður. Þú gleymir mér ekki. Ég fel þig eigin samvisku á vald.
Hann ætlaði að fara en stansaði í dyrunum, leit á myndina sem
ég hafði hæft, skaut á hana nánast án þess að miða og fór. Kona
mín lá í yfirliði; þjónarnir dirfðust ekki að stöðva hann en fylgdust
skelfdir með honum, hann fór út á veröndina, kallaði á ekilinn og
var farinn áður en ég náði að átta mig.“
Greifinn þagnaði. Þannig fékk ég að heyra lok sögunnar sem
eitt sinn hafði haft svo mikil áhrif á mig. Hetju hennar hitti ég aldrei
framar. Það er sagt að Silvio hafi verið fyrirliði í sveitum eterista í
uppreisn Alexanders Ipsilanti og verið drepinn í orrustunni við
Skúljaní.13
13 Alexander Ipsilanti (1792–1828), undirhershöfðingi í rússneska hernum, var forystumaður í
sveit uppreisnarbandalagsins Filiki Eteria í Moldavíu, sem barðist fyrir sjálfstæði Grikklands
og gerði misheppnaða uppreisn gegn Tyrkjum í mars 1821. Lokaorrustan í þeirri uppreisn
var háð við Skúljaní í júní 1821, þar sem nokkur hundruð uppreisnarmenn urðu að lúta í
lægra haldi fyrir ofurefli Tyrkja. Púshkín hafði hitt Ipsilanti árið 1820 í Kíshínjov. Í sögu
Púshkíns „Кирджали“, 1834, segir af þessari orrustu.