Milli mála - 01.06.2014, Blaðsíða 35
AUÐUR HAUKSDÓTTIR
Milli mála 6/2014
38
skal þess, að þegar þau leggja út á dönsku, temji þau sjer gott íslenzkt
orðaval. Svo ber og stöku sinnum að æfa þau í danskri rjettritun.64
Að dönskuna skyldi nota til að eiga samskipti við Dani ber að
skoða í ljósi þess, hve mikils dönsk tunga og menning máttu sín í
Reykjavík og á öðrum helstu verslunarstöðum á síðari hluta
nítjándu aldar.
Undir lok aldarinnar voru stofnaðir nýir skólar, þar sem áhersla
var lögð á starfsnám eða almennt hagnýtt nám. Hér má nefna
Kvennaskólann í Reykjavík (1874), Bændaskólann í Ólafsdal (1880),
gagnfræðaskólana á Möðruvöllum (1880) og í Flensborg (1882) og
Stýrimannaskólann (1891). Í öllum þessum skólum var danska
kennslugrein og einnig var talsverður hluti námsefnisins á dönsku.
Reglugerðir og aðrar lýsingar á kennslunni og upplýsingar um
námsefni eru til vitnis um áhrif þýðingar- og málfræðiaðferðar-
innar,65 en um aldamótin virðist hilla undir breytingar. Árið 1900
kom út bókin Lítil kennslubók í dönsku handa barnaskólum, sem Þóra
Friðriksson samdi. Í formála segist höfundur í mörg undanfarin ár
hafa kennt dönsku í Barnaskóla Reykjavíkur og
… komizt að þeirri niðurstöðu, að kenna má börnum á 2–3 vetrum að
skilja og tala daglegt mál, með því að tala ávallt dönsku við börnin í
kennslustundunum og kenna þeim alla málfræði á dönsku eins og líka, að
láta þau læra smá-vísur utanbókar, og fæ jeg ekki betur sjeð, en að með því
sje ætlunarverk barnaskólans unnið. Með því að kenna þeim málfræðina á
íslenzku og með endalausum útleggingum eyðist of mikill tími og
árangurinn verður þeim mun minni.66
Af orðum Þóru má ráða að það eru ekki einasta samskipti við Dani
sem geta gert nemendur í stakk búna til að skilja og tala dönsku,
heldur ekki síður sú kennsluaðferð sem kennarinn byggir kennslu
sína á. Niðurstaða hennar er sú að það megi kenna nemendum að
skilja og tala dönsku með því að nota málið í kennslustundum í stað
64 Lovsamling for Island XIX (1864–1867), Kaupmannahöfn: Andr. Fred. Höst & Sön, 1885, bls.
457.
65 Auður Hauksdóttir, Lærerens strategier-elevernes dansk, bls. 34–38.
66 Þóra Friðriksson, Lítil kennslubók í dönsku handa barnaskólum, Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan,
1900, bls. 1.