Milli mála - 01.06.2014, Blaðsíða 20
UM DÖNSKUKUNNÁTTU ÍSLENDINGA Á NÍTJÁNDU ÖLD
Milli mála 6/2014
23
og ekkert lát var á þeirri þróun út öldina. Vegna tengslanna við
Danmörku hafði þessa mikla aukning á útgáfu veraldlegs samtíma-
efnis mikil áhrif hér á landi. Með tilkomu lestrarfélaga, sem fyrst
urðu til undir lok átjándu aldar, jókst bókakostur á dönsku, en
margt bendir til þess að það hafi einkum verið menntamenn, sem
hafi gengið í lestrarfélögin, enda þurfti að greiða til þeirra félags-
gjöld, sem var fátæku fólki ofviða. Þá voru flestar bækur á erlendum
málum, sem fáir óskólagengnir menn voru sagðir læsir á (Lúðvík
Kristjánsson21 og Helgi Magnússon22). Vettvangur fyrir umfjöllun
um málefni líðandi stundar var enn ekki til og því voru slík blöð
eftirsótt. Árið 1805 var stofnað lestrarfélag í Skagafirði, þar sem
m.a. voru keypt Berlingske Aviser, Maanedskriftet og Dagen.23 Fjöldi
annarra heimilda sýnir að danskt lesefni af ólíkum toga hefur borist
hingað til lands og að það hafi verið eftirsótt af þeim sem þyrsti í
fróðleik og höfðu unun af lestri. Oft voru Íslendingar í Höfn
beðnir um að kaupa bækur, blöð, tímarit og annað lesefni og senda
til Íslands. Í bréfi til föður síns, sem Konráð Gíslason ritaði frá
Kaupmannahöfn 3. maí 1832, skrifar hann að „Digtekunsten er hèr
hvörgi fáanlig á bókhlödum, en eg vona með tímanum ad geta
máske fengid hana á Áksíón“.24 Ósjaldan er fjallað um sendingar til
landsins, sem höfðu að geyma dönsk blöð og tímarit sem oft gengu
frá manni til manns. Lítum á nokkur dæmi. Í bréfi Ingibjargar
Jónsdóttur til Gríms bróður síns, frá árinu 1835, víkur hún að dag-
blaðapakka, sem hann hafði sent henni25 og í bréfi Brynjólfs Péturs-
sonar til Jens bróður síns frá árinu 1844 stendur: „Ekki veit jeg
hvað jeg ætti að skrifa þjer og kalla frjettir. Jón Sigurðsson sendir
þjer Berlinginn og Föðurlandið, og þar eru í allar frjettirnar.“26 Og
21 Lúðvík Kristjánsson, Vestlendingar. Fyrra bindi, Reykjavík: Heimskringla, 1953, bls. 143–157.
22 Helgi Magnússon, „Fræðafélög og bókaútgáfa“, Upplýsingin á Íslandi : tíu ritgerðir, ritstj. Ingi
Sigurðsson, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1990.
23 Lúðvík Kristjánsson, Vestlendingar, bls. 143–145.
24 Konráð Gíslason, Bréf Konráðs Gíslasonar, Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar, Reykjavík:
Stofnun Árna Magnússonar, 1984, bls. 18.
25 Ingibjörg Jónsdóttir, Húsfreyjan á Bessastöðum : bréf Ingibjargar Jónsdóttur til bróður síns, Gríms amt-
manns, útg. af Finni Sigmundssyni, Reykjavík: Hlaðbúð, 1946, bls. 157.
26 Bréf/Brynjólfur Pétursson, útg. Aðalgeir Kristjánsson, Kaupmannahöfn: Hið íslenzka
fræðafélag, 1964, bls. 69.