Són - 01.01.2009, Qupperneq 41
Á HNOTSKÓGI 41
eftir Portúgalann Julio Dantas, Ofjarlinn og Fedra eftir Frakkana
Corneille og Racine, og Pétur Gautur eftir nágranna okkar Henrik
Ibsen. Þetta er eiginlega of gott til að vera satt, enda hefur þessi bók
farið hljótt um grund. Og ekki hafa enn allar leikritaþýðingar Helga
verið prentaðar. Til dæmis þýðing hans á Dauðadansi Strindbergs sem
flutt var í útvarpi fyrir allmörgum árum.
Um og uppúr 1990 – þegar Helgi var um áttrætt en virtist búa við
fulla starfsorku – koma út margar bækur á hans vegum með nýjum
eða endurskoðuðum verkum. Á þessum árum veltu menn því gjarn-
an fyrir sér hvað Helgi tæki sér nú fyrir hendur næst eða væri með í
vinnslu. Sumir gátu sér þess til að hann ynni nú að þýðingu Canterbury
Tales eftir Chaucer – enda hafði hann eitt sinn þýtt brot úr því verki46
– eða að heildarþýðingu á hinum Guðdómlega gleðileik Dantes. En Helgi
átti það til að koma mönnum á óvart og fáir gátu séð fyrir þá þýðingu
sem birtist árið 1993. Þá kom nefnilega út trúarrit múslima, Kóran, í
þýðingu Helga. Í stuttum eftirmála segir Helgi glettinn frá því að
þýðandi bókarinnar hafi „stundum kallað það sérgrein sína að þýða
úr málum sem hann skilur ekki. Það mun vera af trúnaði við þá köll-
un, að hann tókst á hendur að leggja Kóraninn út á íslensku“, eins og
hann kemst að orði.47 Tíu árum síðar kom út endurskoðuð þýðing
Helga á Kóraninum og þar hefur hann breytt ýmsu að höfðu samráði
við íslenska múslima. „Það er von mín“ segir Helgi í eftirmála út-
gáfunnar frá 2003, „að þýðing þessi á Kórani falli sem flestum þeim í
geð, sem aðhyllast íslam. Þeir sem játa aðra trú, eða enga, kynnu samt
að geta litið á þetta verk sem arabískar bókmenntir, og þær ekki lítils
háttar.“48
Ljóðaforði
Hér að framan hefur nokkuð verið fjallað um ljóðaþýðingar Helga,
allt frá því er hann birti sínar fyrstu þýðingar á nokkrum kvæðum
árið 1950. Næsta áratuginn þar á eftir birtast þessar þýðingar í
bókunum Handan um höf, Á hnotskógi og Undir haustfjöllum, svo sem fyrr
er frá greint. Á þessum árum fjölgar stöðugt þýðingum Helga á kín-
46 Chaucer: „Sagan um hanann“, Helgi Hálfdanarson þýddi, Nýtt Helgafell, 2. árg., 4.
hefti, 1957, bls. 150–154.
47 „Athugasemd þýðanda“, Kóran, þýð. Helgi Hálfdanarson, Reykjavík: Mál og
menning 1993, bls. 420.
48 „Athugasemd þýðanda með 2. útgáfu“, Kóran, 2. útg., endurskoðuð, þýð. Helgi
Hálfdanarson, Reykjavík: Mál og menning 2003, bls. 427.