Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 11
Samskipti Þormóðar Torfasonar og Árna Magnússonar
9
hefur víða leitað fanga; ímyndunarafl hans var taumlaust og allri skynsemi
var hiklaust fórnað á altari föðurlandsdýrkunarinnar. Hann var ekki mjög vel
að sér í grísku, né heldur í íslensku, en sú vankunnátta kom honum raunar að
hvað mestum notum þegar hann var að hrúga upp sönnunum og styðja þær
með skyldleika tungumála.
I Danmörku verður á 17. öld vart þeirrar nýjungar í sagnfræði sem síðar
átti eftir að setja mark sitt á allar rannsóknir í þessari grein og koma þeim á
fastan vísindalegan grundvöll, en það var heimildagagnrýnin.4 Að vísu hafa á
öllum öldum verið til sagnaritarar sem hafa beitt vísindalegu heimildamati.
Af Islendingum má til dæmis nefna Ara fróða Þorgilsson og mann þann sem
skrifaði lýsingu þá sem stendur í Sturlungu af Reykhólabrúðkaupinu og
mjög hneykslaðist á þeim sem tóku trúanlegar sögur af Ormi Barreyjarskáldi
og Hrómundi Gripssyni og aðrar slíkar.5 í Danmörku runnu aðallega tvær
stoðir undir hina nýju vísindalegu sagnaritun á 17. öld, annars vegar
menningaráhrif sunnan að og kynni danskra vísindamanna af vinnubrögðum
þeim sem tíðkuðust með öðrum þjóðum, en hins vegar kynni þeirra af
íslenskum sagnaritum, en þar er, eins og öllum er kunnugt, margt að finna
um Danmörku og Danakonunga á fyrri öldum. Sumt af þessu gat varpað
ljósi á frásagnir Saxa, en um margt bar Saxa og íslenskum heimildum ekki
saman. Mismunurinn eggjaði að sjálfsögðu til heimildakönnunar, vísinda-
legrar gagnrýni og frekari leitar að heimildum. Þannig urðu hinar gömlu
íslensku skinnbækur ein af meginorsökum þess að danskir sagnaritarar
rötuðu út úr þokudrunga afvegaleiddrar föðurlandsdýrkunar í hið tæra loft
vísindalegrar hugsunar og raunsæis.
Fyrstu kynni danskra vísindamanna af íslenskum fornritum virðast hafa
orðið um og eftir miðja 16. öld, þegar til Danmerkur bárust þýðingar
norskra manna á hlutum úr Heimskringlu og fleiri ritum, en sá maður sem
mestan þátt átti í að útlendir fræðimenn tóku að veita íslenskum fornritum
eftirtekt var Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648), og hefur raunar verið
tekið svo til orða að hann hafi lagt grundvöllinn að íslenskum fræðum. Rit
sín um sögu Norðurlanda samdi hann á latínu og fór að langmestu leyti eftir
fornum heimildum íslenskum. Hann mun hafa lagt fullkominn trúnað á
sannfræði íslenskra fornrita, en honum kom aldrei til hugar að bæta við þar
sem þeim sleppti og var að því leyti hátt hafinn yfir suma samtímamenn sína
á Norðurlöndum. Hann tók íslenskar heimildir hiklaust fram yfir Danasögu
Saxa, ef á milli bar, en rit hans höfðu lítil áhrif á danska fræðimenn í því efni:
þeir trúðu á Saxa sinn meðan stætt var á þeirri trú. Það var fyrst með ritum
Þormóðar Torfasonar að stoðunum var kippt undan trú manna á sannfræði
Danasögu Saxa, og er ég þá kominn að efni þessa erindis, sem er að gefa
4 Sjá t.d. Ellen Jorgensen. Historieforskning og historieskrivning i Danmark indtil aar
1800. 3. oplag. [Kobenhavn] 1964, bls. 117.
5 Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um
útgáfuna. Reykjavík 1946.1, bls. 27.