Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 273
Fjögur bréf um Jóreiðardrauma
271
1988) bls. 656). Þá hafði Hrafn Oddsson svarið Gissuri eiða, en hvorugur var
heill í sáttinni. Hrafn sættist síðan við Þorgils skarða og tók til sín Eyjólf
Þorsteinsson, foringja brennumanna frá Flugumýri. Gissuri hafði verið stefnt
utan á konungsfund. í lok júlí „riðu þeir Hrafn og Eyjólfur vestan frá
Sauðafelli með sjö tigu manna. ... Þeir ætluðu að Gissuri og drepa hann. Þeir
riðu suður Reykjardal og hið efra um hálsa og ofan í Hvítársíðu og þaðan á
Bláskógaheiði og svo suður hjá Skjaldbreið og ofan að Miðjumdal."
Þar bíður herinn meðan njósnað er um Gissur, sem virðist gerast um nótt,
því að „þá sömu nótt var Gissur í Langaholti“ (og mun það vera Langholt í
Hreppum, ekki í Flóa, þótt svo sé sagt í nafnaskrám Sturlunguútgáfna). En
þeir Hrafn fengu þá (röngu) fregn að Gissur væri við skip, og snúa þeir við
daginn eftir fremur en „ríða um endilangt hérað við eigi meira lið“. Hér er
helst svo að skilja að her þeirra Hrafns komi að Miðjumdal á næturþeli, og
eru þá vafalaust höfð á heimafólki ströng varðhöld í nokkra klukkutíma,
meðan njósnarmaður rekur erindi sitt. Þetta kynni að vera sá atburður sem
gert hafi unglinginn Jóreiði meðvitaða um hina stórkarlalegu stjórnmála-
baráttu samtímans. A.m.k. hafa Hrafn Oddsson og brennumenn orðið býsna
áþreifanlegir fulltrúar skálmaldarinnar í vitund þeirra sem bjuggu undir
varðhaldi þeirra í Miðjumdal.
Jafnvel kynni nóttin vonda með húsin full af hermönnum að hafa ýft upp
óvelkomna bernskuminningu Jóreiðar. Þórður kakali hafði nefnilega, eftir
því sem segir í sögu hans (Sturlunga bls. 472), farið herferð til Suðurlands
með nær tvö hundruð manna í nóvember 1242. Leið hans lá fyrst um
Borgarfjörð. „Reið þá Þórður suður um heiði Skarðaleið til Laugardals þar
til er hann kom í Tungu [Bræðratungu] til bús Gissurar.“ Skarðaleið er leið
til Laugardals að vestan, önnur en hin venjulega um Lyngdalsheiði (sem oft
er farin í Sturlungu, bæði með friði og ófriði), og er þá ekki ólíklegt að það sé
einmitt sama leið og þeir Eyjólfur og Hrafn fóru 1254. Þá hefur her Þórðar
kakala líka riðið hjá garði í Miðjumdal þegar Jóreiður var þrevetur mær - ef
hún hefur átt þar heima svo snemma.
Þriðja sinni héldu höfðingjar flokkum sínum þessa leið 1262, og segir frá
því í Þorgils sögu skarða (Sturlunga bls. 745). Það er síðla vetrar. Sturla
Þórðarson og Sighvatur Böðvarsson eru á leið úr Borgarfirði til sáttafundar
vegna vígs Þorgils skarða.
„Sturla og Sighvatur riðu suður til Laugardalsskarða. Tók þá veður að
þykkna og gerði á drífu og því næst fjúk. Gerðist þá færð ill. Lögðust þá
fyrir bæði menn og hestar af óveðri. Þeir lágu úti um nóttina í skörðunum en
veður rauf upp í mót degi. Fóru þeir þá suður af heiðinni og voru
drottinsdag í Laugardal en riðu mánadag í Skálaholt.“
Þennan sunnudag, sem Sturla Þórðarson kom í Laugardal kaldur og
hrakinn af fjalli og fékk þar aðhlynningu og næturgreiða á einhverjum
bænum, er gaman að hugsa sér að hann hafi heyrt og lært draumsöguna. Og
þá vísast fært hana í letur án þess að breyta mjög aðalatriðum hennar.