Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 151
Hirðskáld í spéspegli
149
honum þau verk hans er allir þeir er heyrði vissi að hégómi væri og skrök, og
svo sjálfur hann. Það væri þá háð en eigi lof.“' Hégómi, skrök, háð: slíkir
lestir eru víðs fjarri því siðgæði sem auðkennir samband konunga og
hirðskálda í Heimskringlu og Eglu. Jafnvel frásögnin af fundi slíkra
hatursmanna sem Eiríks blóðöxar og Egils Skallagrímssonar í Jórvík ber vitni
um alvöru, einurð og virðingu: skáldið lofar óvin sinn í ódauðlegu kvæði án
þess að skerða sóma sinn hið minnsta og þiggur úlfgrátt höfuð að
hróðurlaunum. Flutningur Höfuðlausnar er hátíðleg athöfn sem minnir á
helgihald; kvæði er fórnað þeirri þögn sem verður þegar skáld kveður sér
hljóðs.
Þá björtu hirðskálda skuggsjá sem sæmir Heimskringlu og ýmsar aðrar
sögur vantar svo gersamlega í einstaka frásagnir að þeim mætti einna helst
líkja við spéspegla. Nú hefur mönnum lengi verið ljóst að í sundurleitum
sögum sem skráðar voru á þrettándu öld og fjölluðu um fólk sem átti að hafa
verið uppi löngu fyrr kunni að vera sveigt að samtímanum, þótt raunar geti
verið býsna erfitt að sanna slíkar tilgátur með ótvíræðum rökum. Sérstakur
grunur hefur fallið á nokkrar frásagnir af almúgafólki sem rataði til útlendra
konunga og gerði sér dælt við þá. Þegar ég velti ævi Snorra Sturlusonar fyrir
mér, þá hvarflar hugur minn einatt að fjórum söguþáttum af norðlenskum
skáldum sem öllum er það sameiginlegt að yrkja um norræna höfðingja og
einnig að vera býsna kynleg í háttum, en þó skemmtileg að sama skapi.
Frásagnir þessar eru Þorleifs þáttur jarlaskálds, Sneglu-Halla þáttur, Hreiðars
þáttur heimska og Stjörnu-Odda draumur. Þetta eru skopsögur í eðli sínu,
þótt í þeim sé ýmsu saman blandað og hver þeirra sé með sínu sérstaka móti,
enda eru skáldin sem þar koma við sögu býsna sundurleit að skapgerð, ef vel
er að gáð. Vafasamt er að gera því skóna að slíkir þættir hafi gengið í munn-
mælum áður en þeir voru skráðir, jafnvel þótt efni þeirra sé af innlendum
rótum, heldur munu þeir vera sprottnir af þeim kynnum sem íslenskir
ritsmiðir höfðu af frönskum fábyljum og öðrum léttúðgum frásögnum úr
landsuðri.1 2
Hispursleysi Sneglu-Halla kæmi lesanda lítt á óvart þótt hann rækist á
slíkt í franskri skrýtlu eða skopsögu frá tólftu öld, enda þykir mikill slægur
í viðræðum þeirra Haralds harðráða. Áður en fundum þeirra ber saman í
fyrsta skipti kallast þeir á af skipum fyrir innan Agðanes. Haraldur
konungur spyr:
1 Hér er staður til að minnast ritgerðar Sverris Tómassonar, „Söguljóð - skrök - háð.
Viðhorf Snorra Sturlusonar til kveðskapar." Skáldskaparmál I (1990), 255-63.
2 Orðið fábylja (flt. fábyljur) er notað hér í staðinn fyrir franska orðið fabliau (flt.
fabliaux), sbr. rit mitt Grettis saga. Vetrarmyndir úrfornöld (óprentað) og grein mína
„Fábyljur og fornar dæmisögur“, Lesbók Morgunblaðsins 10. febrúar 1990. Um
fabliaux og áhrif þeirra á íslenskar bókmenntir að fornu hefur Sverrir Tómasson
fjallað í greininni „Hugleiðingar um horfna bókmenntagrein." Tímarit Máls og
menningar 50. árg. (1989), 211-226.