Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 64
62
Jón Karl Helgason
sé því raunsæislegri. Freud bætir þó við að fleiri og vísari leiðir séu færar til
þess að vekja óhugnað í bókmenntum en í veruleikanum. Rithöfundar hafa
óvenju greiðan aðgang að hugarfylgsnum lesanda, þeir geta leikið sér að
kenndum okkar með fjölbreytilegum lýsingum og því kann lestur að kalla
fram sterkari viðbrögð í brjóstum okkar en venjuleg skynreynsla.5
Dæmi Freuds um það óhugnanlega eru fjölbreytt og eru sum þeirra
sambærileg við einstök atriði og atburði Egils sögu. Blinduð augu, aflimun og
höfuð aðskilið frá líkama eru meðal þess sem Freud segir að veki óhugnað,
ekki síst ef hönd er höggvin við úlnlið eða þegar afhöggnir limir búa yfir
sjálfstæðu lífi. í Egils sögu sjáum við Egil krækja augað úr Ármóði skegg
„svo að úti lá á kinninni" (s. 481), hann heggur fót af Ljóti hinum bleika á
eyjunni Vörl (s. 469) og annan af óvini sínum í Sauðaey (s. 421 )6. Flann fer
nærri því að höggva höfuð af Berg-Önundi (s. 451) og yrkir hróðugur um sig
og félaga sína: „Létum blóðga búka / í borghliðum sæfast“ [sæfast: falla] (s.
426). Fyrr í sögunni grípur Þorgeir nokkur um garðstaur og sveiflar sér út
um skíðgarð til að flýja undan árás Þórólfs, föðurbróður Egils. Þorgils
gjallandi, einn manna Þórólfs, er þar nærstaddur. „Hann sveiflaði til sverðinu
eftir Þorgeiri og kom á höndina og tók af við garðstaurinn" (s. 389). Hleypur
Þorgeir eftir það handarlaus til skógar. Þá er okkur sagt að Haraldur
konungur hafi í upphafi valdaferils síns látið hamla suma óvini sína á hönd-
um og fótum (s. 371). Lýsing á sundrun mannslíkamans nær þó hámarki
þegar Skallagrímur yrkir vísu eftir að þeir Kveld-Ulfur hafa drepið Hallvarð
harðfara og um fimmtíu skipverja hans: „Flugu höggvin hræ / Hallvarðs á
sæ“ (s. 400), segir í vísunni.
Annað sem Freud segir vekja óhugnað er hugmyndin um tvöfaldan
veruleika, hvort sem um er að ræða tvífara eða endurtekningu sömu
aðstæðna, persónueinkenna og örlaga, jafnvel sömu nafna hjá hverri
kynslóðinni á fætur annarri.7 Skýrt dæmi um endurtekningu af þessu tagi í
Eglu eru frásagnirnar af Þórólfi Kveld-Ulfssyni og Þórólfi Skalla-Grímssyni.
Lítill munur er á persónulýsingu þessara frænda, enda vakin athygli á hve
líkir þeir hafi verið. Þórólfi eldra er svo lýst:
Var Þórólfur manna vænstur og gervilegastur. Hann var líkur móðurfrændum
sínum, gleðimaður mikill, ör og ákafamaður mikill í öllu og hinn mesti
kappsmaður. Var hann vinsæll af öllum mönnum. (s. 368)
5 Sama, s. 36-59.
6 Ég vitna til Egils sögu í útgáfu þeirra Jóns Torfasonar, Braga Halldórssonar, Sverris
Tómassonar og Örnólfs Thorssonar á Islendinga sögum og þdttum, fyrsta bindi. Svart
á hvítu, Reykjavík 1987. Ég ber þó sjálfur ábyrgð á vísnaskýringunum sem fylgja
sumum tilvitnunum.
7 „The ‘Uncanny’," s. 39-40. Freud sækir hér að nokkru til Austurríkismannsins Otto
Ranks og hugmynda hans um tvífaraminnið, en á íslensku má vísa til gagnlegrar
greinar Halldórs Guðmundssonar um efnið: „Hamhleypur og samgenglar. Um tvífara
í bókmenntum". Tímarit Máls og menningar 51/3 (1990), s. 23-40.