Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 139
Skarðið í vör Skíða
137
endum í fyrsta sinni ‘í eigin persónu’ ef svo má að orði komast; áður hefur
sögumaður einvörðungu kynnt hann og tæpt á hjónabandsörðugleikum
hans. Lýsingin á Þráni á þessum stað hefur því ákveðið forspárgildi, látæði
hans, gerðir og hegðan öll gefa innsýn í hver maður er hér á ferð og hvers má
af honum vænta síðar í sögunni. Hjónaband hans, ófullnægja hans í því og
lífinu yfirleitt, kemur málinu því sennilega lítið við nema til að draga fram
lesti hans. I fjölmennri veislu og að eiginkonunni viðstaddri, getur hann ekki
leynt græðgi sinni í að komast yfir unglingsstúlku sem hann er að sjá í fyrsta
skipti - hann þrástarir, verður augun ein. Þegar eiginkonunni sárnar og hún
setur ofaní við hann með kviðlingi, verður hann hamslaus og rekur hana ekki
aðeins burt úr eigin lífi, heldur linnir ekki látum fyrr en hún er gerð brottræk
úr mannfagnaðinum líka og hverfur raunar þar með úr sögunni. Sett er á
oddinn að Þráin skortir jafnt þá hófsemi og það réttlæti sem telst til kristinna
höfuðdyggða, og lestir hans verða ekki aðeins því skýrari sem kviðlingur
Þórhildar er meinlausari, heldur virðast augu hans kjarni frásagnarinnar,
þaulhugsuð byggingareining og hliðstæða við þjófsaugu Hallgerðar: í augum
hans má skynja nálægð Njálsbrennu, í augum hennar víg Gunnars.
Ég nefndi þetta dæmi hér af tvennum sökum. í fyrsta lagi vildi ég vekja
athygli á atriði, sem ég vík reyndar aftur að síðar, þ.e. hve margt orkar
tvímælis þegar nútímamenn eru að túlka fornar sögur. Það er ekki nóg með
að við byggjum túlkanir okkar oft og einatt á lesháttum sem eru umdeilan-
legir eða merkingarskýringum sem eru öðru fremur getgátur, heldur hættir
okkur til að týnast í aukaatriðum á kostnað aðalatriða. í öðru lagi langaði
mig að benda á hvaða hlutverki augun gegna í ritum fyrri tíðar manna þar
sem náin samskipti kynjanna ber á góma.
Rudiger Schnell segir í riti sínu Causa amoris, sem ég styðst einkum við í
þessari tölu, að bæði í fornöld og á miðöldum hafi sú hugmynd verið alþekkt
að ástin hæfist í augunum. Um það vitni t.d. kenningin um hin fimm stig
ástarinnar: hið fyrsta stig sjónarinnar, annað ávarpsins eða málsins, þriðja
snertingarinnar, fjórða kossins og hið fimmta samfaranna.7 Á miðöldum
gengu sumir jafnvel svo langt að halda því fram að blindir menn væru sviptir
hæfileikanum til ásta.8 í ljósi þess mætti eflaust túlka ýmsar frásagnir t.d. í
konungasögum þar sem valdamenn eru gjarna blindaðir og þar með staðfest
að þeir hafi verið sviptir þjóðfélagsstöðu sinni, þ.e. vanaðir í táknrænum
skilningi. í íslendingasögum má hins vegar túlka með áþekkum hætti frá-
sögnina af því er Þormóður skáld hefur snúið vísum þeim er hann orti til
Þorbjargar Kolbrúnar til lofs við Þórdísi Grímudóttur, en Kolbrún birtist
honum í draumi og leggur á hann að bæði augun skuli springa úr höfði
honum nema hann lýsi því „fyrir alþýðu“ hvað hann hafi gert (800-801).
7 Rúdiger Schnell. 1985. Causa amoris. Liebeskonzeption und Liebesdarstellung in der
mittelalterlichen Literatur. Bern/Munchen, 241.
8 Andreas Capellanus. 1964. The Art of Courtly Love. Þýðandi John Jay Parry. New
York, 33.