Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 67
Rjóðum spjöll í dreyra
65
Það mætti bera saman fleiri atriði úr „Das Unheimliche" og Egils sögu,u
en að svo stöddu er vert að ræða stuttlega þær skýringar sem Freud kann á
upptökum óhugnaðar. Óhugnað aflimunar rekur hann vafningalaust til
geldingarhræðslu,15 sem hann fjallar nánar um í öðrum ritsmíðum, meðal
annars á þeirri forsendu að við athugun á kynfærum fullorðinna dragi börn
þá ályktun að konur hafi misst getnaðarlim sinn. Þessi sýn veki meðal
drengja ótta við aflimun, sem faðirinn muni framkvæma til að hegna þeim
fyrir að leggja ást á móðurina. Stúlkur, á hinn bóginn, fái á tilfinninguna að
þær séu þegar geldar. Að sögn Freuds er algengt að geldingarhræðsla komi
fram í ótta við að missa augun eða blindast, en til staðfestingar þeirri
hugmynd hefði hann væntanlega getað bent á að í lok Egils sögu fer saman
lýsing á því að Egill hafi orðið „með öllu sjónlaus“ í elli sinni og dróttkvæð
vísa þar sem fram kemur að getnaðarlimur („bergis fótar borr“) hans sé
orðinn gagnslítill (s. 515).
Skýring á óhugnaði tengdum tvíförum og endurtekningum vefst meira
fyrir Freud, enda um margvísleg tilbrigði að ræða. Mynd tvífarans rekur
hann að nokkru til sjálfsdýrkunar barnsins og hins frumstæða manns - sem
finna í spegilmynd sinni staðfestingu á eigin ódauðleika. Þegar við öðlumst
frekari þroska verður tvífarinn hins vegar óhugnanlegur feigðarboði.16 En
tvífarinn, að mati Freuds, kann einnig að tengjast því tímabili bernskunnar
þegar hugveran byrjar að greinast í dulvitund, forvitund og yfirsjálf. Þessa
síðari skýringu má að nokkru heimfæra yfir á það tvíþætta eðli sem býr í
Kveld-Úlfi, Skalla-Grími og Agli. Dýrið í manninum er þá samsamað þeim
bældu þrám sem bærast í dulvitundinni innra með okkur og geta brotist fram
þegar minnst varir.
Til að varpa ljósi á endurtekninguna sérstaklega segir Freud frá því þegar
hann villtist í borg einni á Ítalíu og lauk ítrekuðum tilraunum sínum til að ná
áttum og rata til baka, með því að reika enn og aftur inn í sama
gleðihúsahverfið. Honum fannst þessi reynsla óhugnanleg en þau viðbrögð,
sem og fleiri áþekk dæmi, vöktu honum þann grun að maðurinn væri
haldinn djúpstæðri endurtekningarhvöt, sem væri jafnvel öflugri en
grundvallarþrá okkar eftir vellíðan. Freud fjallar nánar um þessa hugmynd í
greininni „Jenseits der Lustprinzips," (1920).17 Hann lýsir þar hvernig lítil
börn hneigjast stundum til þess í leikjum að endurtaka sársaukafulla og
14 Freud telur að hugmyndin um ákvæðamátt hugsana eða orða, sem við þekkjum hér á
landi úr þjóðtrú á kraftaskáld, veki óhugnað meðal nútímamanna („The ‘Uncanny’,“
s. 45). Ég treysti mér ekki til að fjalla um þetta svið Eglu sem hluta af óhugnaði hennar
en bendi á grein Hallvards Lie, „Jorvikferden. Et vendepunkt i Egil Skallagrimssons
liv.“ Edda 46 (1946), s. 145-248.
15 „The ‘Uncanny’," s. 49-50.
16 „The ‘Uncanny’,“ s. 40.
17 „Handan vellíðunarlögmálsins". Sjá „Beyond the Plcasure-Principle." Þýtt af C.J.M.
Hubback. í safnritinu A General Selection from the Works of Sigmund Freud. Ritstýrt
af John Rickman. Doubleday & Company, Inc. New York 1957, s. 141-68.