Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 83
Hver erþessi Grettir ?
81
felst mótun skáldsögunnar einmitt í áþekkri tvíræðni í meðferð málsins, t.d.
þegar tungutak „annarra" er skopstælt á margvíslegan hátt. Sú skopstæling
byggist á vitund höfundar um muninn á sínu eigin tungutaki og annarra.
Til þess að öðlast þessa gagnrýnu skáldskaparvitund þarf höfundurinn að
fjarlægja sig að vissu marki frá viðfangsefninu. Með fulltingi þeirrar fjar-
lægingar getur hann unnið markvissar úr efnivið sínum og í sömu andrá
opnast leið fyrir hugmyndir sem íklæðast skáldskap.
Franski túlkunarfræðingurinn Paul Ricoeur telur að tungumálið sjálft sé
ein tegund firringar frá hlutveruleikanum. Hann fjallar um þetta í ritgerð sem
nefnist „Túlkunarfræðilegt hlutverk fjarlægingar."7 Þar skiptir hann fjarlæg-
ingu orðræðu og skáldskapar frá veruleikanum í fimm mismunandi þrep. I
fyrsta lagi fjarlægist hversdagslegt tal bæði veruleikann að baki og sjálft
málkerfið. í öðru lagi fjarlægist verkið hina hversdagslegu orðræðu, það er
afurð einstaklingsbundinnar vinnu eða framleiðslu.8 í þriðja lagi fjarlægir
ritun verkið frá ætlun höfundar, verkið verður að menningarsögulegri
heimild um leið og það er ritað. í fjórða lagi birtist skáldaður heimur textans
sem sjálfstæður og margræður lífheimur, annar en raunheimurinn. í fimmta
lagi tileinkar viðtakandinn sér heim textans sem verður honum tæki til
sjálfsskilnings.
Fjarlæging af þessu tagi hlýtur að vera ein helsta forsenda skáldskapar-
vitundar því um leið og höfundur verður sér þess meðvitaður að hann sé að
skapa verk og heim sem sé frábrugðinn raunheiminum hlýtur hann að gera
sér mat úr því rofi sem myndast á milli verks og veruleika. Þá vaknar
spurningin um „vitundarstig“ fornsagna, fjarlægð og afstöðu sagnaritara til
viðfangsefnisins, getu þeirra til að fjarlægjast þann heim sem þeir lýsa og
gæða hann nýrri merkingu.
Ricoeur hefur einnig fengist við tengsl frásagna og veruleika í hinu mikla
verki sínu Temps et récit,9 Þar leitast hann við að sýna fram á það hvernig
frásögnin sem slík er lykilatriði fyrir skilning okkar á tilverunni. Hann
setur fram hugmyndir um það hvernig eftirlíkingin eða mimesis tengir saman
tíma og frásögn. Ricoeur fléttar saman hugleiðingum Ágústínusar kirkju-
föður í 11. bók Játninganna og mimesiskenningum Aristótelesar úr
Skáldskaparlistinni og smíðar úr þeim sína eigin eftirlíkingarkenningu.
7 „La fonction herméneutique de la distanciation" í Exegesis: Problémes de méthode et
exercices de lecture, útg. Francois Bovon og Grégoire Rouiller, Neuchatel, 1975. Hér
er stuðst við enska þýðingu „The hermeneutical function of distanciation" í
ritgerðasafni Ricoeurs, Hermeneutics and the human sciences, New York 1981.
8 Verkið er skilgreint þannig: a) það er röð lengri en ein setning, b) það tekur mið af
reglum einhverrar bókmenntagreinar, sögu, ljóðs eða leikrits og c) stíll þess ljær því
einstaklingsbundin einkenni, háð persónu og aðstæðum höfundar. Hermeneutics
and the human sciences, bls. 136.
9 Ritið kom út í þrem bindum árin 1983-5. Ensk þýðing sem hér er stuðst við kom út
undir heitinu Time and Narrative I-III, Chicago 1984-8. Það er einkum fyrsti hluti
verksins, bls. 3-87 í fyrsta bindi sem stuðst er við.