Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 100
98
Viðar Hreinsson
Ásmundur svarar: „Þú skalt gæta heimgása minna.“
Grettir svarar og mælti: „Lítið verk og löðurmannlegt."
Ásmundur svarar: „Leys þú þetta vel af hendi og mun þá batna með okkur."
Síðan tók Grettir við heimgásunum. Þær voru fimm tigir og með kjúklingar
margir. Eigi leið langt áður honum þóttu þær heldur bágrækar en kjúklingar
seinfærir. Honum gerði mjög hermt við þessu því að hann var lítill
skapdeildarmaður. Nokkuru síðar fundu förumenn kjúklinga dauða úti og
heimgæs vængbrotnar. Þetta var um haustið. Ásmundi líkaði stórilla og spurði
hvort Grettir hefði drepið fuglana.
Hann glotti að og svarar:
Það geri eg víst, er vetrar,
vind eg háls á kjúklingum.
Enn þótt eldri finnist
einn ber eg af sérhverri.
„Og skaltu eigi lengur af þeim bera,“ sagði Ásmundur.
„Vinur er sá annars er ills varnar,“ sagði Grettir. (14. kafli, bls. 968)
Það var hins vegar Ásdís, móðir Grettis, sem hélt lífi í hetjuhugsjóninni
með því að gefa honum sverð og segja honum frá hinum merku forfeðrum
hans, Vatnsdælum. Sverðið hafði átt Jökull Ingimundarson afi Ásdísar. Sá
skyldleiki gæti reyndar haft tvíræða merkingu, það er ekki sama hvort um er
að ræða Jökul Ingimundarson úr Vatnsdœlu eða úr Finnboga sögu ramma.35
Því er hér kannski á ferðinni írónísk afstaða til heildarsamhengis sagnanna og
hefðarinnar. Vígslan til bændasamfélagsins brást, en það tókst að vígja Gretti
inn í hetjuheiminn.
Þetta er ástæðan fyrir forspám Ásmundar um persónu Grettis og framtíð
þegar hann skipaði með sonum sínum rétt fyrir andlát sitt, hann skilur að
Grettir er tímaskekkja í bændasamfélaginu.
En til Grettis kann eg ekki að leggja því að mér þykir á hverfanda hjóli mjög um
hans hagi. Og þó hann sé sterkur maður þá uggir mig að hann eigi meir um
vandræði að véla en fulltingja frændum sínum. (42. kafli, bls. 1019)
Atli, ein af geðþekkustu persónum sögunnar, er bóndi sem aldrei hafði
barist þegar hann neyddist til að drepa andstæðing sinn. Þá sagði hann:
Engi frami er í því að við drepum verkmenn hvor fyrir öðrum og er það næst að
við sjálfir leikumst við því að eg hefi aldrei með vopnum vegið fyrr en nú. (43.
kafli, bls 1020)
Þó er afstaðan til hetjuhefðarinnar tvíræð, höfundur fer létt með að
draga upp hetjur í fáum dráttum eins og sjá má á frægu tilsvari Atla á
dauðastundinni, það er ekta hetjutilsvar. Og enn eitt atriði sem endurspeglar
35 Sigríður Steinbjörnsdóttir sýnir fram á það í óprentaðri ritgerð, „Hetja á horfnu sviði“
að Finnboga saga sé í ríkum mæli skopstæling á hetjuhugmyndum eldri
íslendingasagna. Ritgerð Sigríðar kemst vonandi á prent fjótlega.