Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 79
Hver er þessi Grettir?
VIÐAR HREINSSON
1. Blöndun
Hver saga sem sögð er eða rituð er sett saman úr mörgum ólíkum þáttum.1
Sagt er frá fjölda atburða, persónur geta verið margar og efnið getur komið
víða að. Það gefur auga leið að því sundurleitari sem efniviðurinn og
formáhrifin á sögurnar eru, þeim mun erfiðara er að steypa þeim saman í
heilsteypt verk. Margar hinna bestu íslendingasagna eru einmitt rómaðar
fyrir hve heilsteyptar þær séu en margar sögur eru allt öðruvísi. „Eitt rekur
sig á annars horn, / eins og graðpening hendir vorn“ eins og séra Jón á
Bægisá sagði forðum í bókmenntagagnrýni. Slíkar sögur taka stíl, form og
efnivið úr ýmsum áttum og blanda því oft saman svo úr verður furðulegasti
óskapnaður. Þetta á við um margar íslendingasögur og fornaldarsögur. Oft
er það bara kallað bókmenntaleg áhrif, eins og þegar Laxdæla er talin vera
undir áhrifum frá riddarasögum, en stundum hrópar ólíkur uppruni efnisins
á lesandann. Flóamanna saga er undir sterkum helgisöguáhrifum sem gera
hana um margt öðruvísi en aðrar Islendingasögur og margar yngri sögur taka
upp þjóðsagnaefni, prakkarasögur af evrópskum toga, hetjuferli fornaldar-
sagna o.s.frv. Þiðreks saga af Bern er skrýtinn hrærigrautur úr öllum áttum,
byggður á hetjukvæðum, kjaftasögum þýskra Hansakaupmanna, rituðum
söguheimildum og ýmsu öðru. Innra samhengi sögunnar er ekki meira en
svo að kappinn Þiðrekur er stundum hið mesta hörkutól en stundum
snöktandi riddari. Þá breyttist siðferðisinntak sögunnar smám saman eftir
afskriftum eða gerðum, hún er yfirmáta siðsöm í elstu gerð en blautleg
hugsun er farin að láta á sér kræla í yngri gerðum. Völsunga saga og Hrólfs
saga kraka eru dæmi um sögur þar sem betur hefur tekist að steypa efninu
saman í eina heild en þó er margvíslegur uppruni efnisins greinilegur.
Völsunga saga er til dæmis goðsagnakennd í upphafi, síðari hlutinn er tekinn
úr hetjukvæðum, en sjálf sagan er fornaldarsaga. Þannig rekst saman
þrennskonar textasamhengi, þar sem hugmyndaheimurinn að baki efninu,
tilurð þess og menningarlegt hlutverk eru mismunandi. í Hrólfs sögu kraka
er hetjukvæðaefni, goðsagnaefni og þjóðsagnakennt efni. Báðar sögurnar
eiga það sameiginlegt að þetta margvíslega efni er fellt saman í eina heild þar
1 Gunnar Harðarson og Örnólfur Thorsson lásu greinina yfir í handriti og kann ég
þeim bestu þakkir fyrir margar góðar ábendingar.
SKÁLDSKAPARMÁL 2 (1992)
77