Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 291
Um biskur
289
Eitt atriði enn get ég ekki orða bundist að nefna. Það eru ummæli sem Sigurður hefur
eftir Sturlu Þórðarsyni um Þorgils: „Ennfremur eru höfð eftir Sturlu Þórðarsyni
þessi orð. „Hann var þrályndur í skapi sem faðir hans en hafði brjóst verra.““ (25)
Ef við förum eftir orðanna hljóðan í ummælunum sýnast þetta vera eftirmæli
Sturlu um Þorgils en því fer fjarri. Þessi ummæli lét Sturla falla við Þórð Hítnesing,
á svokölluðum Hellufundi, þegar Þorgils var nýkominn til landsins með
konungsskipun yfir Borgarfirði og ofsi hans og valdahroki er sem mestur. En Sturla
og Hrafn, sem töldu sig fara með völdin í umboði Þórðar kakala, reyndu að andæfa
þessum konungsmanni. Þeir frændur hafa sennilega lítið þekkst því Þorgils fór utan
aðeins átján ára gamall og samband þeirra hálfbræðranna Sturlu og Böðvars virðist
ekki hafa verið mikið. Böðvar var friðsamur og farsæll höfðingi en Sturla aftur á móti
kemur við sögu í nánast öllum stórmálum þessa tímabils. Þórður Hítnesingur reynir
að hafa áhrif á Sturlu og finnst honum standa nær að fylgja Þorgilsi frænda sínum að
málum en Hrafni. Þá segir Sturla: „Við fundumst á hausti að Helgafelli og komu við
þá öngu á samt meðal okkar. Mátti ég ekki það mæla er eigi tæki hann með forsi og
fjandskap. Mun hann vera þrályndur í skapi sem faðir hans en hafa brjóst verra.“
(593)
Síðan liðu sex ár þar til Þorgils var drepinn og á þeim tíma ekki aðeins sættust þeir
frændur heldur urðu miklir vinir sem mátu hvor annan æ meir. Það er því grófleg
fölsun að nefna þessi orð Sturlu sem eftirmæli um Þorgils.
Þótt hér sé komið í frásögn Sigurðar af atburðum þessum lætur hann ekki staðar
numið við að upphefja Þorvarð en úthúða Þorgilsi. Þótt mér þætti full ástæða að fara
í gegnum það gagnrýnisorðum finnst mér nú nóg komið.
Auðvitað hefur hver sínar skoðanir á sögunum, ekki síst sannleiksgildi þeirra. Við
vitum að Sturlunga er skrifuð af Sturlungum, fyrst og fremst um Sturlunga og getur
því ekki verið hlutlaus frásögn að öllu leyti. Það væri ekki ónýtt að eiga sérstaka sögu
Þorvarðs Þórarinssonar, svo ég tali nú ekki um Gissurar sögu Þorvaldssonar. Þá er
hætt við að margt úr fortíðinni væri litið öðrum augum.
Það hefur löngum þótt góð latína að tína til einhverja menn og stimpla þá
föðurlandssvikara sem komu landinu undir Noreg. Efstir á blaði eru þá jafnan
taldir menn eins og Gissur, Þórður kakali og Þorgils skarði. Samt sjá allir hugsandi
menn að svona einfalt var það nú ekki. Að hið forna þjóðveldi féll má skýra með
einu orði: Fátækt. Sannleikurinn var sá að eftir að kom fram á 13. öldina, íslendingar
höfðu misst allar siglingar úr höndum sér og enginn átti lengur haffært skip, svo
háðir aðflutningum og verslun við útlönd sem við höfum alltaf verið, þá voru örlög
þjóðveldisins ráðin. Þetta sáu höfðingjar þess tíma og skildu vel og vissu hvað var að
gerast. Og það er óskup eðlilegt að hver um sig reyndi að ná sem stærstri sneið af
valdakökunni frá Noregskonungi. Gissur jafnt sem Þórður, Þorvarður ekki síður en
Þorgils. Nei, fyrir alla muni, við skulum halda áfram að lesa þessar gömlu bækur,
hugsa um þær, tala um þær og ekki síst rífast um þær.
Hafi Sigurður Sigurmundsson alúðarþakkir fyrir vel skrifaða bók.