Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 292
William Ian Miller: Bloodtaking and Peacemaking: Feud, Law, and
Society in Saga Iceland. Chicago: Univerúty of Chicago Press, 1990.
420 hls.
GÍSLI PÁLSSON
í tvo áratugi eða svo hefur nokkur hópur erlendra bókmenntafræðinga, mann-
fræðinga, og sagnfræðinga fengist við rannsóknir á Islendingasögum sem „ethnó-
grafískum" heimildum, þar sem lögð er áhersla á félagslega þætti og menningarlegan
samanburð fremur en textann sjálfan og bókmenntafræðileg sjónarmið. Þjálfun
þeirra, uppruni og nálgun er raunar afar mismunandi. Sum þeirra hafa haft
rannsóknir á Islendingasögum nánast sem aðalstarf, til dæmis Jesse Byock, Carol
Clover og William Miller. Aðrir hafa litið til sagnanna í framhjáhlaupi í tengslum við
rannsóknir sínar á evrópsku miðaldasamfélagi, til að mynda Aaron Gurevich, Ruth
Mazo Karras og Jacques Le Goff. Enn aðrir hafa nálgast sögurnar með mannfræði-
legan samanburð í huga - ýmist að loknum vettvangsrannsóknum í öðrum
heimshlutum, til dæmis Paul Durrenberger (í Tælandi) og Victor Turner (í Austur
Afríku), eða í bóklegu námi eða beinu framhaldi af því, meðal annars Kirsten
Hastrup, Knut Odner og Rosalie Wax. Þrátt fyrir ólíkan feril og fræðileg viðhorf á
þessi hópur það sammerkt að líta á sögurnar sem mannfræðilega heimild - eins
konar vettvangsskýrslu - um íslenska þjóðveldið og norrænt samfélag á miðöldum.
Sú bók, sem hér er til umræðu, er framlag til þessara rannsókna. Höfundurinn,
William Ian Miller kennir sig við „félagssögu“ (social history) og hefur sérhæft sig í
rannsóknum á lögum og málaferlum. Hann leggur áherslu á að enda þótt margt af
því sem getið er um í sögunum sé hreinn skáldskapur, séu þær óhjákvæmilega
afsprengi íslensks miðaldasamfélags. Það sem vakir fyrir honum er að draga saman
margvíslega vitneskju sem í sögunum felst um samfélag þjóðveldisaldar, í því skyni
að leiða í ljós innri gerð þess, einkum hvað varðar deilur og vopnaskak, samhengi
laga og stjórnmála, samspil ættarhópa og samskipti goða og þingmanna. Um
helmingur bókarinnar fjallar um heimildirnar sjálfar og félagsgerð þjóðveldisins. Frá
sjónarhóli íslenskra lesenda kann þessi þáttur að vera óþarflega ítarlegur, enda mikið
til hrein og bein lýsing og endursögn. Þar er hins vegar lagður grunnur að
rannsóknum höfundar á málaferlum, lögum og friðarumleitunum, sem mörgum
erlendum lesendum gengi vafalaust illa að skilja ef ekki fylgdi almenn umfjöllun um
heimildir og félagsgerð.
Frá sjónarmiði mannfræðings er rannsókn Millers athyglisverð fyrir margra
hluta sakir. Hann grípur gjarna til etnógrafískra dæma úr sögunum til að skýra
alhæfingar sínar um meðferð ágreinings á þjóðveldisöld, dæma sem hljóma trúverðug
og hafa á sér raunveruleikablæ, rétt eins og þau væru skrásett af athugulum áhorfanda
á vettvangi. Og yfirleitt er eðlilegt samræmi milli dæma og alhæfinga, milli frásagna
af vettvangi og félagslegrar kenningar. Umræða hans um venjur, reglur, gildi og
hefðir á þjóðveldisöld - um normatíf fyrirbæri eða það hvernig hlutirnir eigi að vera
- er aldrei langt frá því sem er, þeim félagslega veruleika sem í sögunum birtist. Hann
leggur gjarna áherslu á hvernig fólk ber sig að, enda sækir hann iðulega í kenningar
fræðimanna sem hafa sett athöfnina (praxis) á oddinn, m.a. Pierre Bourdieu. Síðast en
ekki síst er bók Millers athyglisverð fyrir það, að hún freistar þess að tefla saman
lýsingum sagnanna á atburðum, sem eiga að gerast á þjóðveldisöld, og vitneskju um
svipaða atburði í öðrum samfélögum. Miller heldur því fram, að heimur sagnanna sé