Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 13
Samskipti Þormóðar Torfasonar og Árna Magnússonar
11
hættuleg. Þormóður dvaldist því um veturinn í Kristiansand og steig þar á
hollenskt skip í mars 1659 og ætlaði til Kaupmannahafnar. En á leiðinni var
skipið tekið af sænskum sjóræningja, og var Þormóður tekinn til fanga og
fluttur til Jótlands. Þar slapp hann frá ræningjunum, sem líklega hafa verið
drepnir þegar þeir gengu á land á Vendli til rána. Síðan dvaldist Þormóður í
ýmsum stöðum á Jótlandi, lengst í Álaborg. Árni Magnússon hefur tínt
saman úr minnisbók (stambog) Þormóðar nöfn ýmissa heldri manna og
höfðingja sem Þormóður hefur heimsótt þetta vor,6 og kemur þar fram sá
þáttur í skapgerð hans sem varð honum til mikils framdráttar, að hann var
maður ófeiminn og höfðingjadjarfur, en þó einarður og gjörsneiddur öllum
undirlægjuhætti og falsi. Hann komst loks til Kaupmannahafnar í júlímánuði
1659. Hugmynd hans hafði verið að halda áfram námi, en trúlega hefur hann
verið gjörsamlega peningalaus þegar þangað kom, svo að til þess var ekki að
hugsa og þaðan af síður að fara til náms suður á bóginn, sem hann hefur ef til
vill ætlað sér. En hann komst fljótlega í vináttu við menn innan konungs-
hirðar, og er þar sérstaklega til nefndur jagtmeistari Friðriks þriðja Dana-
konungs, Johan Diepholt að nafni.
Þegar Þormóður kom til Hafnar í þetta sinn var íslenskur prestur í
þjónustu konungs sem Þórarinn hét, Eiríksson, og hafði þann starfa að þýða
íslensk fornrit á eitthvert það tungumál sem danskir fræðimenn gætu skilið
og notað, eða eins og það var orðað á dönsku ‘i et forstáeligere og brugeligere
sprog’.7 Þórarinn þessi hafði verið prestur í Heydölum, en hrökklaðist frá
kjól og kalli fyrir kvennamál og komst síðar í þjónustu konungs. Um haustið
1659 vildi svo vel til fyrir Þormóð að Þórarinn þessi fór eitthvað óvarlega
nálægt síkjunum í Kaupmannahöfn og drukknaði þar. Þá sá Þormóður sér
leik á borði að krækja í starf hans. Þetta starf veitti konungur honum um
vorið 1660, og áttu þar einhvern hlut að máli jagtmeistarinn, Johan Diepholt,
og Henrik Bielke höfuðsmaður. Fyrir starfa sinn fékk Þormóður 300 dali í
laun á ári, herbergi í konungshöllinni, ljósmeti og eldivið, ennfremur öl og
brauð í árdegisverð og ýmis hlunnindi önnur, og segir Jón Eiríksson
konferensráð, að þetta hafi mátt kallast meira en í meðallagi virðulegt starf að
þeirrar tíðar mati. Jón Eiríksson efast hins vegar um að Þormóður hafi
nokkurn tíma fengið bréf fyrir þessu starfi sínu, þótt hann sé í bréfum frá
íslandi á þessum árum nefndur kongelig translateur; í dönskum skjölum sem
geta hans um þetta leyti hefur hann ekki þennan fína titil.
Öllum sem hafa skrifað um Þormóð kemur saman um að hann hafi ekki
setið auðum höndum eftir að hann fékk þetta starf, og þarf raunar ekki
annarra vitna við um það efni en doðranta þeirra sem enn eru geymdir í
Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn með hluta af því sem Þormóður sneri
á dönsku á þessum árum, en svo er að sjá sem hann hafi snúið mestallri
Flateyjarbók á tveimur árum. Að vísu mun hann hafa notið aðstoðar
6 Þessi nafnalisti er í AM 219 8vo, bl. 15-19.
7 Árni Magnússons levned og skrifter II, bls. 130. Minerva 1786, bls. 661.