Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 110
108
Aðalgeir Kristjdnsson
kenndir við Selárdal í Arnarfirði og kallaðir Seldælir. Langafi Sturlu
Bárðarsonar var Bárður svarti Atlason í Selárdal. Samkvæmt Landnámu var
Geirþjófur Valþjófsson ættfaðir þeirra. Hann nam land í Arnarfirði og bjó í
Geirþjófsfirði.1 í Skáldatali er Bárður svarti nefndur meðal skálda Magnúsar
konungs berfætts. Meðal barna hans voru Sveinbjörn á Eyri (Hrafnseyri) í
Arnarfirði, Aron forfaðir Arons Hjörleifssonar, sem hér á eftir að koma við
sögu, og Snorri afi Sturlu Bárðarsonar og bræðra hans, Péturs og Snorra.
Bárður faðir Sturlu var prestlærður og nefndur prestur í Sturlungu. Hann átti
fyrir konu Þórdísi, dóttur Hvamm-Sturlu og Ingibjargar Þorgeirsdóttur.
Ingibjörg var fyrri kona Sturlu og átti með honum Steinunni konu Jóns
prests Brandssonar auk Þórdísar. Synir þeirra voru nefndir Jónssynir og hétu
Bergþór, Ivar, Brandur og Ingimundur. Sá síðastnefndi var mikill vinur
Snorra Sturlusonar. Ingibjörg var föðursystir Guðmundar biskups góða
þannig að Sturla Bárðarson og biskup voru að öðrum og þriðja. Guðný
Böðvarsdóttir var síðari kona Hvamm-Sturlu. Afkomendur þeirra þekkja
allir. Þeir Þórður, Sighvatur og Snorri voru móðurbræður Sturlu Bárðarsonar
og hann og Sturla Sighvatsson systkinasynir.
í upphafi 13. aldar var Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri í Arnarfirði einn
mestur höfðingi á Vestfjörðum og fyrir Seldælum. Hann var frægur sem
læknir og talið að hann hafi fyrstur Islendinga lagt stund á læknisfræði í
háskóla, en sú íþrótt hafði hafist í ætt Seldæla með Atla Höskuldssyni afa
hans. Af Hrafni er sérstök saga, merkisrit á marga lund, rituð til að halda á
loft og fegra minningu hans. Hins vegar er Þorvaldi Vatnsfirðingi, höfuð-
andstæðingi Hrafns, hvergi nærri borin vel sagan. Menn hafa leitt getur að
því að Sturla Bárðarson væri höfundur Hrafns sögu.2
Ekki er vitað hvenær Sturla Bárðarson fæddist. Hans er fyrst getið í
Prestssögu Guðmundar góða í föruneyti hans í september 1201 og þá
kallaður djákn.3 Það merkir að hann hafi tekið allar hinar lægri vígslur sem
þurfti til að geta tekið prestvígslu. Djáknavígsla var bundin ákveðnu aldurs-
takmarki, en mismunandi eftir löndum. Af því er séð verður urðu djáknar að
vera tvítugir eða eldri.4 Eftir því væri Sturla Bárðarson fæddur um 1180 og
því nær jafnaldra Snorra Sturlusyni frænda sínum eða litlu yngri. Engum
getum verður að því leitt hvar Sturla Bárðarson aflaði sér klerklegrar
menntunar. E. t. v. var Guðmundur góði kennari hans, en vafalítið þurfti
hann ekki svo langt að fara þar sem faðir hans var prestur og Hrafn
Sveinbjarnarson hefir trúlega aflað sér nokkurrar klerklegrar menntunar
auk þess sem hann var lögspakur og skáldmæltur.
1 íslenzk fornrit I, Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík 1968, 178-79.
2 Björn M. Ólsen: Safn til sögu íslands III, 246—49. Runólfur A. Þórarinsson cand. mag.
var á sömu skoðun í kandidatsritgerð sinni: Vatnsfirðingar og ríki þeirra á 13. öld til
loka þjóðveldisins.
3 Sturlunga saga. Ritstjóri Örnólfur Thorsson. Reykjavík 1988.1, 200. Allar tilvitnanir
í Sturlungu eru teknar út þessari útgáfu.
4 Kulturhistorisk leksikon íor nordisk middelalder III, 51-52.