Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 286
284
Um bœkur
kemur babb í bátinn, „öngvir komu fram handsalamenn," sem sagt enginn sómakær
bóndi vildi ganga í ábyrgð í svo augljóslega röngu máli. Þetta vilja þeir bræður ekki
sætta sig við og reyna nú að fara með hernaði gegn Sæmundi sem mistekst herfilega
í fyrstu tilraun. En þrátt fyrir sættir og hótanir Sæmundar, ef þeir yrðu ekki til friðs,
voru þeir bræður enn ekki af baki dottnir því skömmu síðar segir svo í Sturlungu:
„Næsta vor eftir er Þórður kakali fór utan reið Sæmundur Ormsson í móti þeim
Oddi og hafði sjálfdæmi af mönnum hans.
Og það sama sumar er Sæmundur var á þingi tók Þorvarður Þórarinsson
Guðmund Ormsson og nokkura menn með honum og flutti þá nauðuga til
Austfjarða og voru þar haldnir til Ólafsmessu.
Þorvarður var sekur um hernað á alþingi og Oddur.“ (935-36)
Síðar segir um sættirnar:
„Varð það að sætt að þeir skyldu hluta hvor gera skyldi við eið, Sæmundur og
Þorvarður. Nú hlaut Sæmundur að gera. Þessari gerð var upp lokið undir Lónsheiði
og var það upphaf að hann gerði sér til handa sex tigi hundraða fyrir töku
Guðmundar á hendur Þorvarði en tvö hundruð á hendur hverjum þeirra er fóru
með honum og skyldi annar eyrir upp gefast er annar væri goldinn." (936)
Þetta finnst mér eftirtektarvert, að bjóða það að gefa helminginn af sektinni eftir.
Síðan segir nánar frá sektum og því að Sæmundur dæmdi sér goðorðin eins og
líklegt var og ennfremur: „Eftir það bauð hann þeim heim en þeir sóttu boðið og gaf
hann þeim sæmilegar gjafir.“ (936)
Ef við stöldrum nú aðeins við og íhugum þessa frásögn sjáum við að ef Sæmundur
hefur verið „óeirinn og óbilgjarn" - ja, hvað mætti þá segja um frændur hans
Þórarinssyni. Þeir virða einskis löglega dóma ef þeir falla þeim ekki í vil heldur reyna
með hernaðarofbeldi að sigra Sæmund og sættir og vinaboð skipta þá engu.
En kaflanum í íslendingasögu er ekki lokið. í niðurlagi hans segir: „Fám vikum
síðar lét Oddur drepa Þorstein Tjörvason og var illa látið yfir því verki. Flann átti
Þórdísi Jónsdóttur föðursystur Odds [og systur Brands ábóta].“ (936)
Ef við þetta bætist nú að þeir bræður Þorvarður og Oddur hafi á einhvern hátt
staðið með Ögmundi Helgasyni að drápi Ormssona, eins og ráða má af upphafi
tilvitnunar á bls. 933, þá þarf engan að undra sá dómur sem þeir fá, bæði af frændum
sínum, sagnariturum og þeim sem sögurnar lesa.
Og nú virðast örlög Odds ráðin. Hann er kominn í ónáð hjá frændfólki sínu,
jafnvel Þorvarði bróður sínum líka, fyrir dráp Þorsteins Tjörvasonar.
Að Oddur hafi erft mannaforráð Oddaverja eftir Filipus tengdaföður sinn, eins og
Sigurður heldur fram (11-12), kemur ekki til greina heldur hafa þau komið í hlut
Andrésar Sæmundarsonar. Það er því auðséð að Oddur hefur staðið uppi valdalaus
og vinasnauður á þessum umbrotatímum. En þá gerist merkur atburður. Sumarið
1252 kemur skip af hafi í Eyjafirði en með þessu skipi komu fjórir farþegar sem allir
áttu eftir að marka djúp spor í íslandssöguna, hver með sínum hætti. En svo ólíkir
sem þeir voru var þó eitt sameiginlegt með þeim öllum. Þeir voru allir menn
Hákonar Noregskonungs. Þetta voru þeir valdsmennirnir: Heinrekur settur biskup
á Hólum, Þorgils skarði af konungi skipaður yfir Borgarfjörð, Gissur Þorvaldsson
skipaður yfir Skagafjörð og Finnbjörn Helgason móðurbróðir Þórarinssona en
hann var settur yfir Norðurland austan Eyjafjarðar.