Skáldskaparmál - 01.01.1997, Síða 80
78
Bergljót S. Kristjánsdóttir
sögu skálds, en hins vegar er vert að íhuga af hverju slík áhersla er lögð á að draga
fram vargsnáttúruna í ætt Egils og útlista hve ljótur hann og föðurætt hans hafi
verið.
Einfaldast er ef til vill að segja sem svo að Egill hafi verið ljótur og vargi líkastur,
þ.e. að ganga út frá að hann hafi verið til, að minnsta kosti sem alþekkt söguhetja
með fastmótuð einkenni sem margar frásagnir gengu af og mörg kvæði voru
eignuð. Það má styðja ýmsum rökum, t.d. vísa í aðrar fornar sögur, svo sem
Laxdælu sem virðist gera ráð íyrir að lesendur þekki afkomendur Kveld-Úlfs og
helstu einkenni þeirra.9 En slík skýring færir okkur ekki nær skilningi á hlutverki
þáttanna sem í hlut eiga innan söguheildarinnar og hrekkur því skammt.
Næst er kannski vert að spyrja hvort Kveld-Úlfur, Skalla-Grímur og Egill birtist
hver af öðrum í sögunni sem vargar í hjörð guðs lamba og séu ljótir í samræmi
við það. Sú spurning virðist nauðsynleg af því að úlfurinn er alþekktur í kristnu
táknmáli, og í ýmsum miðaldabókmenntum, t.d. frönsku söguljóðunum chansons
degeste, var ekki óalgengt að útlit hetjanna væri látið endurspegla hvort þær gengju
á vegum guðs eða kölska (Um þetta efni, sjá t.d. Jauss 1977:385-410). í Eglu er
ekki að sjá að ljótleikinn og úlfsnáttúran séu fyrst og fremst guðfræðileg fyrirbæri.
Afkomendur Kveld-Úlfs, jafnt heiðnir sem kristnir, eru ýmist fagrir eða ljótir og
virðast hafa fengið sitt lítið af hvoru, kostum og löstum. Þórólfur Kveld-Úlfsson
er t.d. vænn og gervilegur en hann er líka svo örgeðja ofláti að það verður honum
að fjörtjóni. Grímur bróðir hans er ljótur og hamrammur, en hann kann sér hóf
í því sem honum er sjálfrátt og er að auki svo orðhagur að unun er að. Þess utan
eiga Egill og frændur hans einkum í baráttu við heiðna landshöfðingja sem
sannanlega skortir ögn afþví sem prýða skal væn guðs lömb. Og eini landshöfðingi
sögunnar, sem hefur mætur á Agli og á honum reyndar ríki sitt að launa, er
Aðalsteinn, sem er ekki aðeins „vel kristinn“ heldur hefur viðurnefnið „hinn
trúfasti" (103).
Ónefnd er enn sú skýring sem virðist líggja beinast við: útlit Egils og „úlfúðin“
í skalla hans eiga hlut að atburðarás. Atökin og fálætið sem verða með honum og
Þórólfi spretta t.d. ugglaust af því að annar er fríður og vel að sér ger, hinn ljótur
og „þykir ekki“ einu sinni „góður viðskiptis . . . ódrukkinn“ (63) — en báðir fella
hug til sömu konu, eins og ýmsir hafa fjallað um (sjá t.d Sigurður Nordal
1942:169—70). Útlit Egils stendur honum líka fyrir þrifum þegar hann drepur
höfðinu óglaður í feld sinn og kveðst ekki þora „að hefja“ „ennis... þvergnípur“
(121) sínar í návist Asgerðar en vargstennur hans og -lund verða honum til lífs í
viðureigninni við Atla hinn skamma. Svona mætti lengi telja og bæta við að útlit
Egils og úlfseinkenni vitnuðu m.a. í sögunni um gróteska tækni, þar sem
andstæðunum óhugnaði og hlátri væri teflt saman af fádæma listfengi.10 Og um
það munu menn naumast deila, en þar með er ekki öll sagan sögð.
y í lýsingu á Kjartani Ólafssyni í Laxdælu segir t.d.: „ . . . mikill maður og sterkur eftir sem verið
hafði Egill móðurfaðir hans eða Þórólfur" en engin deili eru sögð á Þórólfi eins og allir eigi að
vita hver hann var og hvernig hann var (Laxdæla saga 1993:62).
10 Um gróteska tækni, sjá t.d. Bakhtin (1968) og Best (1980).