Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 228
226
Aðalheiður Guðmundsdóttir
ljós, svo ekki verður um villst, að útgáfa þjóðkvæðauppskrifta DFS 67 er ekki
nógu traust fyrir þjóðsagnafræðinga og aðra þá sem vilja rannsaka kvæðin eða
nota þau til hvers konar samanburðar. Hún gefur í mörgum tilvikum ranga mynd
af því sem þar er að finna. Það er a.m.k. ekki á það treystandi að tiltekið kvæði sé
yfir höfuð í því handrid sem á er bent, en ef það er þar, þá er a.m.k. ekki víst að
það sé sams konar og það sem miðað er við. Hvort hið sama gildir einnig um
útgáfur eftir öðrum handritum fullyrði ég ekki og verður hver að draga sínar
ályktanir varðandi það. Líklegt finnst mér þó að meðferð DFS 67sé einkennandi
fyrir aðferð Ólafs Davíðssonar. Að vísu voru vinnubrögð og fræðilegar kröfur að
vissu marki með öðrum hætti á 19. öld en nú tíðkast, en það er a.m.k. víst að
útgáfan svarar ekki þeim kröfum sem nú eru gerðar og eru ótvírætt nauðsynlegar.
Það er samt sem áður kaldhæðnislegt að fyrrgreindur ritdómur Ólafs um Magnús
Grímsson verður auðveldlega heimfærður upp á hann sjálfan og hljóta verk hans
því að dæmast af hans eigin orðum: kvæðin hafa auðvitað aldrei verið flutt á Islandi
á þessa leið!
Staðreyndin er sú að mörg kvæðanna í útgáfu Ólafs hafa í raun aldrei verið til.
Samt sem áður hafa ýmsir menn sótt þangað efni til birtingar annars staðar,
sjálfsagt í þeirri trú að þetta væru hin einu sönnu þjóðkvæði.40 Svo hafa kvæðin
auðvitað bæði verið prentuð, lesin og sungin fyrir yngstu kynslóðina, sem stendur
þó líklega nokkuð á sama um uppruna þeirra. En hvort sem lesendur eru
meðvitaðir um útgáfugalla kvæðanna eða ekki, er vissulega þörf á nýrri útgáfu.
Það er afar mikilvægt að þjóðsagnafræðingar styðjist við og hafi tiltækar traustar
og góðar útgáfur. Ég hef leitast við að gera grein fyrir hvernig þeim málum er
háttað varðandi meginþorra þjóðkvæða og samkvæmt ofangreindum niðurstöð-
um væri þeim sem þurfa að vinna með kvæði úr Þulum ogþjóðkvæðum e.t.v. vissast
að nota handritin sjálf. Hinum, sem vilja lesa þennan skemmtilega samsetning
sér og öðrum til afþreyingar og fræðslu, þó ekki væri nema til að minna litla
ólátaseggi á tilvist Grýlu eða róa þá með vögguvísum og barnagælum, óska ég hins
vegar góðrar skemmtunar.
39 Meðal annarra kvæða sem hafa fengið svipaða meðferð eru „Krumminn á skjá, skjá“, bls. 247,
„Táta, Táta teidu dætur þínar“, bls. 217-18 og „Ólafur gaf mér öxi“, bls. 228.
40 Til að mynda hefur Einar ÓI. Sveinsson tekið framangreinda þulu „Stígum við stórum“ orðrétt
í bók sína Fagrar heyrði eg raddimar (bls. 246).