Skáldskaparmál - 01.01.1997, Side 240
Freyfaxahamarr
JÓN HNEFILL AÐALSTEINSSON
I
Hrafnkels saga Freysgoða er talin rituð seint á 13. öld eða enn síðar (SN 1940,
69; ST 1994, 792). Sagan greinir frá atburðum sem eiga að hafa gerst fyrir og um
miðja tíundu öld og hafa skoðanir skipst talsvert þegar metið hefur verið að hve
miklu leyti og í hvaða atriðum höfundur byggir hugsanlega á öðrum ritum og
arfsögnum og þá ekki síst hversu frjálslega hann fari með slíkan efnivið. Skil milli
arfsagna og skáldskapar í Hrafnkels sögu er einnig viðfangsefni mitt í eftirfarandi
ritgerð.1
Rannsókn mín beinist að örnefninu Freyfaxahamri og atburðum sem sagan
segir að þar hafi gerst. Eg beiti þjóðfræðilegri eða þjóðsagnafræðilegri rannsókn-
araðferð og leitast þannig við að sýna hvað í frásögninni á hugsanlega rætur í
arfsögnum og hvað ekki. Þjóðsagnafræðileg aðferð hindrar þó ekki að einnig sé
tekið mið af niðurstöðum fræðimanna sem beitt hafa öðrum rannsóknarað-
ferðum.2
1 Þessi ritgerð er byggð á fyrirlestri sem fluttur var á Hrafnkötluþingi á Egilsstöðum í ágúst 1993
og þakka ég athugasemdir sem þar komu fram.
2 í ritlingnum Bókfrœði Hrafrkels sögu Freysgoba 1993 er dregið fram allt það helsta sem um
Hrafrkels sögu hafði verið ritað til þess tíma. Hér verður hins vegar aðeins nefnt það sem beint
og óbeint snertir umræðuna í minni ritgerð.
Árið 1940 leiddi Sigurður Nordal rök að því í ritgerð sinni, Hrafnkötlu, að Hrafnkels saga
Freysgoða væri skáldverk og aðalviðburðirnir sem sagan segir frá, „hrakningur Hrafnkels frá
Aðalbóli, uppgangur hans á Hrafnkelsstöðum, endurheimt hins fyrra ríkis hans,“ hefðu aldrei
gerst. Tvær af aðalpersónum sögunnar, Þjóstarssynir, hefðu aldrei verið til (SN 1940, 66).
Hrafnkötlu hafði að því er best verður séð ekki borið fyrir augu Aslak Liestols árið 1945 er hann
birti ritgerð um að Hrafnkels saga byggði á fornum arfsögnum um trúarsögulegt efni og dró
fram samanburðardæmi víða að (AL 1945, 60-63). Ári síðar birtust andmæli Knut Liestols við
Hrafnkötlu Sigurðar Nordals, þar sem hann hélt einnig fram arfsagnagildi trúarefnis í sögunni,
m.a. með tilvísun til síðastnefndrar ritgerðar (KL 1946, 98-99). Eins og ég hef vakið athygli á
fyrir löngu (JHA 1971,39) berhér minnaámillien virstgæd, því að í HrafnkötluleiðirSigurður
Nordal hjá sér að mestu að fjalla sérstaldega um það sem segir af Freysdýrkun Hrafnkels í
sögunni.
Á sjöunda áratugnum tók Hermann Pálsson upp þráðinn frá Sigurði Nordal um Hrafnkels
sögu sem skáldverk og gerði m.a. athygliverðar samanburðarrannsóknir á Hrafnkels sögu
Freysgoða og Alexanders sögu (HP 1962, 53-54; 82-87). Árið 1976 kom svo út bók um
Hrafnkels sögu eftir Óskar Halldórsson þar sem hann snerist öndverður gegn viðhorfi Sigurðar
Nordals til sögunnar, en hélt því fram að hún byggði á gömlum arfsögnum af Austurlandi.
Meginrökin fyrir þessari niðurstöðu leiddi Óskar af samanburði á upphafsfrásögnum Hrafnkels
sögu og samsvarandi frásögnum í Landnámu með sérstakri hliðsjón af rannsóknum á norskum
byggðasögnum, en einnig vitnaði hann til fyrrgreindrar rannsóknar Aslak Liestols á trúarefni
sögunnar.
Ágreiningur Óskars Halldórssonar við Sigurð Nordal um arfsagnir og skáldskap í Hrafnkels
sögu er að sumu leyti sambærilegur við það sem fyrr sagði um mismunandi viðhorf Aslak og