Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 241
Freyfaxahamarr
239
Arfsagnaefni sem hugsanlega leynist að baki Hrafnkels sögu getur verið mis-
munandi. Þar geta verið arfsagnir tengdar staðháttum eða einstaklingum en
einnig trúararfsagnir, mótaðar af ríkjandi trúarbrögðum hvers tíma (GTP 1964,
137). Það gildir raunar um mat á þessu efni öllu, að þar kemur trúarviðhorf
einstakra frásagna mjög til álita. Trúarviðhorf frásagnar getur oft skorið úr um það
hvað gat gerst og orðið sagnaefni á tíundu öld og hvað útilokað er að sé byggt á
arfsögnum frá þeim tíma.
Freyfaxahamar hefur lengi verið fræðimönnum torráðið viðfangsefni. Eg mun
drepa á sumt af því sem fram hefur komið og síðan velta því fyrir mér hvar
hugsanlegt er að Freyfaxahamar sé, hafi verið eða hafi ekki verið. Auk þess varpa
ég í upphafi fram eftirfarandi spurningum:
1. Er sagan að rekja tíundu aldar arfsagnir um atburði við Freyfaxahamar?
2. Á frásögnin rætur í arfsögnum frá kristnum tíma?
3. Er í einhverjum mæli um að ræða skáldskap höfundar?
II
Freyfaxahamar er aðeins nefndur á einum stað í Hrafnkels sögu Freysgoða og verð
ég samhengisins vegna að birta hér í upphafi örlítinn kafla úr sögunni:
Þjóstarssynir létu senda eptir Freyfaxa ok liði hans, ok kváðust vilja sjá gripi þessa er
svá gengu miklar sögur af.
Þá váru hrossin heim leidd. Þeir bræðr líta á hrossin.
Þorgeirr mælti: „Þessi hross lítask mér þörf búinu; er þat mitt ráð at þau vinni slíkt
er þau megu til gagnsmuna, þangat til er þau megu eigi lifa fyrir aldrs sökum. En hestr
þessi sýnisk mér eigi betri en aðrir hestar, heldr því verri at margt ilt hefir af honum
hlotizk; vil ek eigi at fleiri víg hljótisk af honum en áðr hafa orðit; mun þat nú makligt
at sá taki við honum er hann á“.
Þeir leiða nú hestinn ofan eptir vellinum. Einn hamarr stendr niðr við ána, en fyrir
framan hylr djúpr. Þar leiða þeir nú hestinn fram á hamarinn. Þjóstarssynir drógu fat
eitt á höfuð hestinum, taka síðan hávar stengr ok hrinda hestinum af fram, binda stein
við hálsinn ok týndu honum svá. Heitir þar síðan Freyfaxahamarr.
Þar ofan frá standa goðahús þau er Hrafnkell hafði átt. Þorkell vildi koma þar; lét
hann fletta goðin öll. Eptir þat lætr hann leggja eld í goðahúsit ok brenna allt saman.
(Hrafnkels saga Freysgoða 1959, 27-28; Sbr. Hrafnkels saga 1987, 1410-1411, þar
Knut Liestols og Hrafnkötlu. Minna ber í raun á milli en talið hefur verið. Megingagnrýni
Sigurðar Nordals beindist að sögulegum sannindum Hrafnkels sögu (7; 15; 66; 74 o.v.), en
málflutningur Óskars Halldórssonar beinist að því að sýna fram á að sagan byggi á arfsögnum
(31; 33-34; 65 o.v.). Það liggur í augum uppi að þetta tvennt þarf ekki endilega að fara í bága
hvort við annað. Þá skortir nokkuð á að Óskar Halldórsson taki upp til alvarlegrar umræðu
meginrökin fyrir niðurstöðum Sigurðar Nordals um að sagan sé skáldverk, t.d. segir hann lítið
meira um Þjóstarssyni, en að þar geti verið um nafnarugling að ræða á vestfirskum höfðingjum
(42-43).